Myndlistarsjóður

Bryndís Snæbjörnsdóttir & Mark Wilson hlutu myndlistarverðlaun ársins 2022

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson hlutu Myndlistarverðlaun ársins 2022fyrir sýninguna Vísitasíur í Listasafninu á Akureyri. 

Mark Wilson og Bryndís Snæbjörnsdóttir

Í umsögn dómnefndar kemur fram
 
„Sýningin er afrakstur margra ára rannsóknarverkefnisins Ísbirnir á villigötum sem þau hafa unnið í samvinnu við sérfræðinga á sviði þjóðfræði, náttúru- og umhverfisfræði. Verkefnið snýst um að auka þekkingu á tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum hamfarahlýnunar. Til þess er sjónum beint að hvítabjörnum á Íslandi í fortíð og nútíð. Verkin á sýningunni varpa ljósi á spurningar um náttúruvernd, skoða frásagnir af árekstrum fólks og hvítabjarna í gegnum tíðina og hvað það er sem gerist þegar þessi tvö rándýr mætast.“

Mynd af sýningunni Vísistasíur í Listasafninu á Akureyri. Mynd:Daniel Starri

„Ferill þeirra er fjölbreyttur og þau hafa nýtt rannsóknaraðferðir samtímalistar til að eiga í samtali við rannsóknir á öðrum sviðum, svo sem náttúruvísindum, þjóðfræði og umhverfisfræðum. Þau líta svo á að aðferðir samtímalistar geti fært mikilvæga viðbót í samtal milli ólíkra fræðigreina og beint sjónum í nýjar og óvæntar áttir. 

Þau Bryndís og Mark nýta fjölbreyttar aðferðir við framsetningu verka sinna, þar sem samspil myndbandsverka, fundinna hluta, teikninga, ljósmynda og ýmissa gagna mótar innsetninguna í samhengi við hvern og einn sýningarstað. Innsetning þeirra í Listasafninu á Akureyri var í senn áhrifarík og fræðandi og myndaði áhugaverða heild í rými safnsins.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Myndlistarverðlaunanna 2022:

Carl Boutard fyrir sýninguna Gróður jarðar í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni 
Steingrímur Eyfjörð fyrir sýninguna Tegundagreining í Listasafni Reykjanesbæjar
Anna Hrund Másdóttir, Ragnheiður Káradóttir og Steinunn Önnudóttir fyrir sýninguna
Feigðarós í Kling og Bang

HVATNINGARVERÐLAUNIN 2022

Lucky 3: Dýrfinna Benita Basalan, Darren Mark og Melanie Ubaldo.
Mynd: MargrétSeemaTakyar

Lucky 3 eru handhafar Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2022.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

„Verðlaunin hljóta þau fyrir gjörninginn PUTI sem var á dagskrá Sequences X listahátíðarinnar haustið 2021. Verkinu er lýst sem félagslegri kóreógrafíu sem endurspeglar veruleika kynþáttahlutverka og stigveldi valds í samfélaginu. Hópurinn samanstendur af þremur listamönnum sem rekja uppruna sinn til Filippseyja; þeim Dýrfinnu Benitu Basalan, Darren Mark og Melanie Ubaldo. Þegar þau vinna saman nýta þau arfleifð sína og þann stöðuga menningarlega árekstur sem einkennir líf þeirra. Þau stofnuðu hópinn árið 2019 í aðdraganda fyrstu sýningar þeirra í Kling og Bang, Lucky me? „

PUTI gjörningur í OPEN á dagskrá Sequences X. Mynd: Omra Harding

„Puti þýðir hvítt. Í gjörningi sínum, sem fram fór í listamannarekna rýminu OPEN á Grandagarði, klæddist listafólkið hvítum fatnaði og setti sig í hlutverk ræstingafólks. Margir Filippseyingar á Íslandi vinna við þrif og hefur ræstingastarfið vissan innflytjendastimpil á sér. Lucky 3 gerðu í því að ögra óskrifuðum samskiptareglum sem gilda um ræstingafólk, fólk sem samfélagið getur ekki verið án en á helst ekki að taka pláss á vinnustað sínum. Fólk sem á hvorki að sjást né heyrast og tilheyrir oft í raun ekki starfsmannahópnum. Þau gengu í humátt á eftir fólki og skúruðu slóð þess. Þau höfðu séð fyrir sér að laga viðmót sitt gagnvart sýningargestum að húðlit gestanna og vera notaleg við þá sem hafa brúnan húðlit en fjandsamleg við hvíta. Þetta gekk illa upp því að flestir gestir voru hvítir og endurspeglar það kannski hversu einsleitur sá hópur er sem sækir myndlistarviðburði á Íslandi.  Gjörningur þeirra var ögrandi og ágengur og lét engan sem upplifði hann ósnortinn.
 
Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ársins 2022:

Guðrún Tara Sveinsdóttir er að stíga sín fyrstu skref í sýningarhaldi hérlendis en hefur þegar skapað sér sérstöðu í list sinni. Hún vinnur með gjörninga og skúlptúra sem gangast við því að rannsaka pólitíska samfélagsmeðvitund og afstöðu einstaklingsins gagnvart hlutheiminum.

Klāvs Liepiņš og Renāte Feizaka eru tilnefnd fyrir samvinnuverk sín. Þau koma bæði frá Lettlandi og hafa starfað saman gegnum árin og verið virk í íslensku myndlistar- og menningarlífi. Í sameiginlegum verkum sínum tekst þeim að koma til skila skýrri sýn sem ræðst á skilningarvitin og skilur eftir sterk hughrif. 

Dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2022 skipa: 

Aðalheiður Valgeirsdóttir (Listfræðafélag Íslands) 

Ásgeir Skúlason (Samband íslenskra myndlistarmanna) 

Ágústa Kristófersdóttir (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna) 

Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður dómnefndar (Myndlistarráð) 

Páll Haukur Björnsson (Listaháskóli Íslands)