Myndlistarráð úthlutar 40 milljónum í styrki til 87 verkefna í fyrri úthlutun sjóðsins á þessu ári. Sjóðnum bárust 261 umsókn og sótt var um fyrir rúmum 274 milljónum alls. Umtalsverð aukning var á umsóknum eða 44% aukning á milli ára.
Styrkir til sýningarverkefna eru 58 talsins að heildarupphæð 25 milljónir. Þar að auki veitir myndlistarráð 7 undirbúningsstyrki að heildarupphæð 2,7 milljónir og í flokki útgáfu- og rannsóknarstyrkja eru 22 verkefni sem hljóta styrki að heildarupphæð 12,3 milljónir króna.
Meðal helstu styrkveitinga að þessu sinni má nefna:
Hæstu styrkina hlýtur Verksmiðjan á Hjalteyri 1,5 milljón króna fyrir sýningardagskrá 2021 og 1,2 milljón króna hlýtur myndlistartvíæringurinn Sequences sem verður haldinn í tíunda sinn í október 2021. Tveir hljóta 1 milljón króna í styrk, það er Gjörningaklúbburinn fyrir Flökkusinfóníuna, viðamikið sjón- og tónverk og Bryndís H. Snæbjörnsdóttir hlýtur styrk fyrir útgáfu er spannar viðamikið samstarf þeirra Snæbjörnsdóttur/Wilsons sl. 20 ár.
Fjölbreytt verkefni hlutu styrki á bilinu 400-800 þús. kr, meðal annarra má nefna þrjú sýningarverkefni, yfirlitssýning Guðnýjar Rósu Ingimarsdóttir í Listasafni Reykjavíkur, sýning á verkum Shoplifter í Hrútey og Hjólið IV, afmælissýningarröð Myndhöggvarafélagsins sem mun þræða sig eftir göngu- og hjólastígum í Laugardalnum sumarið 2021. Hallgerður Hallgrímsdóttir hlýtur styrk fyrir bókverkinu, Dauðadjúpar sprungur og Steinar Örn Erluson fyrir útgáfu bókarinnar, Ritmál ljóssins sem tekur á sögu ljósmyndunar.
Hlutverk myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Myndlistarsjóður heyrir undir myndlistarráð og starfar samkvæmt myndlistarlögum og eftir reglum sem menntamálaráðherra setur. Sérskipaðar matsnefndir meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun til myndlistarráðs. Úthlutunarnefndir voru tvær sem skiptu með sér umsóknum, þau skipa: Dagný Heiðdal, Hannes Sigurðsson, Jón Bergmann Kjartansson Ransú, Elín Hansdóttir, Íris Stefánsdóttir og Unndór Egill Jónsson.
Myndlistarráð er skipað: Helga Þorgils Friðjónssyni, formanni myndlistarráðs, Dagnýju Heiðdal f.h. Listasafns Íslands, Hannesi Sigurðssyni f.h. listfræðifélagsins, Guðrúnu Erlu Geirsdóttur f.h. SÍM og Hlyni Helgasyni f.h. SÍM.
Nálgast má lista yfir allar úthlutanir sjóðsins hér