Myndlistarráð úthlutar 47 milljónum í styrki til 85 verkefna í fyrri úthlutun sjóðsins. Sjóðnum bárust 198 umsóknir og sótt var um fyrir rúmum 221 milljónum.
Styrkir til sýningarverkefna eru 57 talsins að heildarupphæð 29.140.000 kr. Þar að auki veitir myndlistarráð 9 undirbúningsstyrki að heildarupphæð 5.640.000 kr. og í flokki útgáfu-, rannsókna- og aðrir styrkir eru 19 verkefni sem hljóta styrki að heildarupphæð 12,2 milljónir króna.
Meðal helstu styrkveitinga að þessu sinni má nefna:
Verksmiðjuna á Hjalteyri hlýtur hæsta styrkinn eða 2.500.000 kr. fyrir sýningardagskrá Verksmiðjunnar. Þess má geta að sýningin Endurómur í Verksmiðjunni á Hjalteyri hlaut viðurkenningu sem áhugaverðasta samsýningin 2021 á Íslensku myndlistarverðlaununum. Kling & Bang hlýtur 1.500.000 kr. fyrir sýningardagskrá. Kling & Bang sem er listamannarekið rými, staðsett í Marshall húsinu, hefur verið starfrækt í 19 ár og hlýtur auk þess í flokki undirbúningsstyrkja 1.000.000 kr. fyrir sýningarverkefnið Pussy Riot. En 10 ár eru liðin síðan Pussy Riot flutti Pönkbæn sína í kirkju í Moskvu og er sýningunni ætlað að vera fyrsta heildstæða sýningin um feril þeirra.

Myndlistarmaðurinn Rúrí hlýtur 1.000.000 kr. fyrir undirbúning á einkasýningu sinni í Museu Internacional de Escultura Contemporánea MIEC_ST í Santo Tirso í Portúgal sem opnar í janúar 2023.
Myndlistarmaðurinn, Magnús Tumi Magnússon hlýtur 1.000.000 kr. í flokki útgáfu-, rannsóknir og aðrir styrkir, fyrir útgáfu bókar um myndlist sína frá árunum 2012-2022, en bókin verður gefin út af Space Petry forlaginu í Danmörk.
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sem hefur miðlað menningu og listum í Alþýðuhúsinu á Siglufirði sl. 10 ár hlýtur 1.000.000 kr. í flokki Aðrir styrkir fyrir listahátíð sem ber yfirskriftina Frjó afmælishátíð sem fer fram í sumar.

Afar fjölbreytt verkefni hlutu styrki á bilinu 300-900 þús. kr. Þar má nefna Huldu Rós Guðnadóttur sem hlýtur styrk til vinnustofudvalar við ISCP í New York (International Studio and Curatorial Program) og Ragnheiði Gestdóttur fyrir vinnustofudvöl hjá European Ceramic Work Center og Anna Júlía Friðbjörnsdóttir fyrir rannsóknarverkefni í Künstlerhaus Bethanien í Berlín. Nýlistasafnið hlýtur styrk fyrir sýningu sem tekur fyrir hinsegin myndlist og hinseginleika í listsköpun og söfnun. Sýningar- og rannsóknarverkefni af þessu tagi hefur ekki átt sér stað á íslensku safni eða sýningarstað áður og vonin er sú að sýningin verði aflvaki vitundar um hinseginleika í myndlist.

Alþjóðlega listahátíðin Ferskir vindar verður nú haldin í sjöunda sinn og listamannarekna rýmið OPEN hlaut styrk fyrir tveimur sýningum og röð ólíkra viðburða með fjölbreyttum hóp íslenskra og erlendra listamanna. Fjöldi listamanna hlutu verkefnastyrki fyrir einka- og samsýningum, hér á landi og erlendis. Nálgast má lista yfir allar úthlutanir og nánari upplýsingar hér.
Hlutverk myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Myndlistarsjóður heyrir undir myndlistarráð og starfar samkvæmt myndlistarlögum og eftir reglum sem menntamálaráðherra setur. Sérskipaðar matsnefndir meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun til myndlistarráðs.
Myndlistarráð er skipað: Helga Þorgils Friðjónssyni, formanni myndlistarráðs, Dagnýju Heiðdal f.h. Listasafns Íslands, Margrét Elísabet Ólafsdóttir f.h. listfræðifélagsins, Guðrúnu Erlu Geirsdóttur f.h. SÍM og Hlyni Helgasyni f.h. SÍM.