Aðalverðlaunin féllu í skaut Hrafnkels Sigurðssonar fyrir sýninguna Upplausn í Auglýsingahléi Billboard, í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Y gallerí.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:
Árið 2022 sáu allir Reykvíkingar þegar óræðar hreyfimyndir birtust á 450 skjáum úti um alla borg, í strætóskýlum og á stórum auglýsingaskiltum. Á skjáunum birtust síbreytilegar þokur sem mynduðu stundum form og mynstur sem leystust þó jafnóðum upp aftur.Þetta var ekki bilun heldur verkið Upplausn eftir Hrafnkel Sigurðsson, unnið upp úr stórum, samsettum ljósmyndaverkum frá 2018 þar sem ótal örsmáir fletir raðast saman í þokukennda mósaíkmynd. Hver flötur er stækkun úr ljósmynd frá Hubble-geimsjónaukanum sem sýnir vetrarbrautir í himingeimnum eins og þær voru fyrir milljónum ára þegar ljósgeislarnir sem sjónaukinn nemur lögðu af stað. Hrafnkell valdi brot úr myndinni á milli vetrarbrautanna þar sem ekkert virtist sjást. Við stækkun má þó greina þar litbrigði og línur, og Hrafnkell raðaði síðan brotunum saman. Úr því sem sýnir ekkert varð allt í einu mynd.
Verkin afhjúpa ýmislegt um skynjun okkar og skilning. Ef við skoðum eitthvað sem er langt í burtu erum við í raun að gægjast aftur í tímann: það sem er milljón ljósár í burtu birtist okkur núna eins og það var fyrir milljón árum. Ef við skoðum jörðina úr geimfari sjáum við bara stóru drættina, höf og landmassa, en ef við skoðum efnisheiminn of grannt leysist hann upp, eins og Hrafnkell sýndi okkur í verki frá 2014 þar sem hann beindi rafeindasmásjá að steinsteypu sem reynist þá alls ekki eins fast efni og við héldum.
Það er mat dómnefndar að með því að nýta auglýsingaskiltin hafa Hrafnkell og fleiri opnað nýja leið til að miðla myndlist en Hrafnkell sýni líka að skiltin eru ekki bara eins og fletir til að fylla út í, heldur er hægt að nýta þau sem miðil með öllu sem tæknin býður upp á og koma skilaboðunum úr sýningarsalnum út í hversdagslegan veruleika okkar þar sem við þurfum mest á þeim að halda.

Hvatningarverðlaunin hlaut Ásgerður Birna Björnsdóttir fyrir sýninguna Snertitaug í Listasafni Reykjavíkur- Hafnarhúsi.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:
Myndlistarkonan Ásgerður Birna Björnsdóttir (f. 1990) hefur þegar markað sér sérstöðu meðal ungra listamanna með því að varpa fram áleitnum vangaveltum um framtíðina og takast á við þær spurningar sem eru hvað mest knýjandi í samtímanum og varða samspil manns og náttúru.
Sýning hennar Snertitaug vakti verðskuldaða athygli. Sólarrafhlöður utan á safnbyggingunni knúðu myndbandsverk á LED skjám sem sýndu spírandi valhnetur og kartöflur. Birtuskilyrði og veðurfar stýrðu því hvernig sýningin birtist frá degi til dags. Bláar plastsnúrur sem fluttu raforku frá sólinni til tækjanna í innsetningunni héngu á veggjum salarins og kölluðu fram hughrif um lífrænar taugar. Einnig voru kartöflur og valhnetur að störfum við spírun í litlum plastvösum á veggjum og fylgdu sinni eigin köllun og hlutverki í hinni eilífu hringrás efnisins. Í hvítu rýminu bjó léttleiki og viss glaðværð, blönduð undrun og ugg, andspænis galdri náttúrunnar. Í verkinu var að finna beinan samruna hins lífræna og hins stafræna sem vakti áhorfendur til umhugsunar um það hvernig mörk þessara tveggja sviða verða sífellt óljósari.
Að mati dómnefndar var sýningin áhrifamikil og virkni tækjanna og starfsemi lífveranna, sem á sér stað að stórum hluta handan beinnar skynjunar mannsins, beindi sjónum að grunneigindum lífs og vaxtar á jörðinni og oft á tíðum klunnalegra aðferða mannsins til þess að virkja þessa orku og stýra henni.

Heiðursviðurkenning myndlistaráðs var veitt í þriðja sinn og var það listakonan Ragnheiður Jónsdóttir sem hlaut hana fyrir einstakt framlag sitt til íslenskrar myndlistar.

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:
Ragnheiður Jónsdóttir hefur markað djúp spor í íslenska listasögu með áhrifaríkri beitingu tækni í teikningu, fyrst í grafíkverkum og síðar í sérlega stórbrotnum og áhrifaríkum teikningum. Ragnheiður fæddist árið 1933 í Reykjavík og ólst upp í Þykkvabænum. Hún var komin á fertugsaldur þegar hún byrjaði fyrst að láta að sér kveða á sviði myndlistar. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968 og hefur átt óslitinn feril síðan þá.

Etching
Svartlistin, grafíkin, var það listform sem Ragnheiður lagði helst stund á fyrstu árin á ferli sínum. Undir lok sjöunda áratugarins vaknaði áhugi á að efla aðferðir til listsköpunar sem ekki höfðu notið virðingar í sögulegu samhengi. Grafíkin var tjáningarmáti sem margir listamenn tileinkuðu sér á þessum tíma og varð áttundi áratugurinn blómatími íslenskrar svartlistar. Listakonur, eins og Ragnheiður, beittu sér sérstaklega á þessu sviði. Ein skýring þess er að viðurkenndir miðlar, eins og málverk og höggmyndagerð, áttu sér langa sögu sem snerist að mestu um listsköpun karlmanna. Grafíklistin gaf því færi á tjáningu sem var að sumu leyti óháð þeirri hefð. Ragnheiður tileinkaði sér frá upphafi fjölbreyttar og vandaðar aðferðir við gerð grafíkverka og náði miklum árangri í að þróa tæknina á persónulegan hátt. Fyrir vikið varð hún leiðandi, jafnt innan lands sem utan, í eflingu og skilningi á svartlist sem miðli.

Pappír, kol
150x150cm
Það er vegna margháttaðs framlags Ragnheiðar til íslensks myndlistarvettvangs sem þessi verðlaun eru veitt. Hún hefur hafið veg teikningar og svartlistar í íslenskri myndlist til vegs og virðingar. Margþættur og fjölbreyttur myndheimur svartlistarverka hennar er einstakur, hvernig hún byggir upp kvenlæga sýn og töfraraunsæi á grunni teikningar og prentlistar. Á seinni árum hefur hún tekið teikninguna föstum tökum í stórbrotnum myndverkum þar sem náttúrusýnin er tjáð í reynd, í sterkri nánd og mikilvirkri áferðarteikningu. Það er á þessum fjölbreytta grunni sem myndlistarráð hefur ákveðið að heiðra Ragnheiði Jónsdóttur fyrir lífsstarf hennar í þágu íslenskrar myndlistar og menningar.
Myndlistarráð veitti auk þess þrjár viðurkenningar.

Viðurkenningu fyrir útgefið efni fengu Æsa Sigurjónsdóttir & Snæbjörnsdóttir/Wilson fyrir bókina Óræð lönd: samtöl í sameiginlegum víddum.
Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:
Bókin vekur eftirtekt fyrir heildstæða og einstaklega vandaða framsetningu á innihaldsríku efni sem veitir einstaka innsýn í listhugsun Bryndísar og Marks en þau hafa verið í hópi leiðandi listamanna á sviði listrannsókna undanfarna tvo áratugi. Ritið Óræð lönd er samstarfsverkefni, gefið út í tengslum við tvær sýningar sem haldnar voru samtímis í Gerðarsafni í Kópavogi og á Listasafninu á Akureyri haustið 2021.
Um er að ræða sjálfstætt ritverk sem opnar lesandanum aðgang að listhugsun og aðferðarfræði Bryndísar og Marks á vaxandi sviði listrannsókna. Meðal höfunda efnis er Mark Dion sem í inngangi dregur upp skýra mynd af þeim sem brautryðjendum. Samræður þeirra við Terike Happoja dýpka enn frekar skilning lesandans á hugmyndalegum forsendum verka þeirra og reynsluheimi sem hefur mótað tiltekna lífssýn og liggur til grundvallar listrænni nálgun þeirra. Tveir greinarhöfundar, Æsa Sigurjónsdóttir og Rose Birrell, víkka enn frekar sjónarhorn lesandans hvor um sig út frá listfræði og heimspeki. Sjálfum verkunum eru gerð ítarleg skil í gegnum alla bókina með ljósmyndum og stuttum texta um hvert og eitt þeirra.

Odelvíðátta, 1982-83
Úr safni Listasafns Reykjavíkur – Errósafn
Viðurkenningu fyrir áhugaverðasta endurlitið hlaut Listasafn Reykjavíkur
fyrir sýninguna Erró: Sprengikraftur mynda í sýningarstjórn Danielle Kvaran og Gunnars B. Kvaran.
Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:
Sýningin spannaði feril Errós frá upphafi til líðandi stundar. Heiti sýningarinnar endurspeglaði ekki aðeins ögrandi myndmálið og ólguna sem einkennir listsköpun þessa mikilvirka listamanns og hið taumlausa ímyndaflæði samtímans er hún tjáir, heldur gaf hún einnig tóninn fyrir umfang sýningarinnar sem fyllti út í hvern krók og kima Hafnarhússins, ef svo má segja. Þar gat að líta glæsilegan vitnisburð um víðfeðmt sköpunarsvið Errós í formi málverka, grafíkmynda, samklipps, tilraunakvikmynda, gjörninga, skúlptúra og lágmynda, auk ljósmynda frá ferli listamannsins og annars fróðleiks.
Sýningin veitti heildstætt og greinargott yfirlit um feril Errós allt frá því er hann hóf að marka sér sérstöðu í evrópskum listheimi á sjötta áratugnum, þar sem hann lét fljótlega að sér kveða á vettvangi framúrstefnu með tilraunum sínum með ný tjáningarform, fram til þess tíma er hann mótaði og þróaði þann frásagnakennda og margbrotna myndheim sem hann hefur löngum verið þekktastur fyrir.
Um sýningarhönnun sá Axel Hallkell Jóhannesson.

Minnismerki um gengisfellingar á níunda áratugnum, 2022
Ljósmynd: Pétur Thomsen
Viðurkenning fyrir áhugaverðustu samsýninguna féll í skaut Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík fyrir sýninguna Hjólið V: Allt í góðu í sýningarstjórn Kristínar Dagmarar Jóhannesdóttur.
Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:
Hjólið V: Allt í góðu var haldin í elstu hverfum Reykjavíkurborgar síðastliðið sumar. Að þessu sinni voru sett upp útilistaverk eftir átta listamenn sem allir eru félagsmenn Myndhöggvarafélagsins, nema sænska listakonan Ulrika Sparre sem var alþjóðlegur gestur sýningarinnar. Einkar fjölbreyttur hópur listafólks tók þátt í sýningunni í ár, en þau voru: Emma Heiðarsdóttir, Finnur Arnar, Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar, Ragnheiður Gestsdóttir, Sean Patrick O’Brien, Steinunn Gunnlaugsdóttir, Ulrika Sparre og Wiola Ujazdowska.
Sýningin náði yfir stórt svæði, frá sjávarsíðunni Sæbrautarmegin yfir á göngustíginn við Ægisíðuna, og fylgdi óhefðbundinni gönguleið á milli hverfa. Mikil breidd var í verkunum sem opnuðu á margþætta skoðun á borgarlandslaginu og gáfu tækifæri til að upplifa kunnuglegt umhverfi á nýjan hátt, kynnast verkum einkar fjölbreytts listafólks og velta fyrir sér tíma og rými borgarinnar á eigin forsendum. Flest verkanna voru áþreifanlegar höggmyndir en nokkur höfðu viðbótarveruleika á stafrænu formi sem skoða mátti í snjallsíma.

Innilitir, 2022
Ljósmynd: Pétur Thomsen

Enginn skemmtir sér við skemmdarverk, Innan virkisveggja, 2022
Ljósmynd: Pétur Thomsen

Allt är bra, All is well, Allt í góðu, 2022
Ljósmynd: Pétur Thomsen

Súla II, 2022
Ljósmynd, Pétur Thomsen
Dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2023 skipa:
- Ásdís Spanó, formaður dómnefndar (Myndlistarráð)
- Jón Proppé (fulltrúi safnstjóra íslenskra safna)
- Sigrún Hrólfsdóttir (Samband íslenskra myndlistarmanna)
- Halldór Björn Runólfsson (Listfræðafélag Íslands)
- Unnar Örn (Listaháskóli Íslands)