Myndlistarráði er sönn ánægja að kynna Íslensku myndlistarverðlaunin.
Verðlaunin verða í fyrsta skipti afhent í febrúar næstkomandi og opnað hefur verið fyrir tilnefningar. Það er Myndlistarráð sem stendur að verðlaununum sem hafa þann tilgang að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar á Íslandi. Verðlaununum er ætlað að stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og styðja við myndsköpun þeirra.
Tilnefndu hér til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2017, opið er fyrir tilnefningar til 17. janúar 2018.
Veitt verða verðlaun í tveimur flokkum: Myndlistarmaður ársins og Hvatningarverðlaun ársins.
Aðalverðlaun, 1 milljón króna, verða veitt íslenskum myndlistarmanni eða myndlistarmanni með búsetu á Íslandi sem þykir hafa skarað framúr með nýlegum verkum og sýningu á Íslandi á síðastliðnu myndlistarári, 2017. Hvatningarverðlaun, 500 þúsund krónur, verða veitt ungum starfandi myndlistarmanni sem lokið hefur grunnnámi á síðastliðnum 5 árum og sýnt hefur opinberlega innan þess tíma.
Dómnefnd Myndlistarverðlauna Íslands er skipuð fulltrúum Listaháskóla Íslands, Listfræðafélagi Íslands, Myndlistarráði, safnstjóra íslenskra listasafna (Listasafn Íslands, Listasafnið á Akureyri, Listasafn Reykjavíkur, Gerðarsafn, Nýlistasafnið, Listasafn Árnesinga, Listasafn Reykjanesbæjar, Listasafn ASÍ) og Sambandi íslenskra myndlistarmanna.
Dómnefnd er skipuð til eins árs í senn og í henni sitja árið 2017-2018:
Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, myndlistarmaður (SÍM)
Sigrún Hrólfsdóttir, deildarforseti myndlistardeildar Listaháskóla Íslands
Magnús Gestsson, formaður Listfræðafélags Íslands
Margrét Elísabet Ólafsdóttir, fulltrúi safnstjóra íslenskra safna
Margrét Kristín Sigurðardóttir, formaður Myndlistarráðs