Myndlistarsjóður

Kristján Guðmundsson hlýtur Heiðursviðurkenningu myndlistarráðs 2022

Myndlistarráð veitir nú í annað sinn Heiðursviðurkenningu fyrir ævistarf auk þess veitir myndlistarráð þrjár aðrar viðurkenningar, en þær eru; viðurkenning fyrir útgefið efni, auk viðurkenninga fyrir áhugaverðasta endurlitið og samsýningu ársins. 

Kristján Guðmundsson. Mynd:Lilja Birgisdóttir

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

Þegar litið er yfir rúmlega fimm áratuga feril Kristjáns er ljóst að gildi verka hans felst fyrst og fremst í vitsmunalegu inntaki þeirra og viðleitni listamannsins til að skapa nýja merkingu. Verk hans eru fjölbreytt bæði hvað varðar efnistök og miðla en einkennast þó iðulega af kerfisbundnum vinnubrögðum og kímni. Hann hefur sýnt okkur formfegurð og einfaldleika í hversdagslegum hlutum og kannað á skipulagðan hátt möguleika miðilsins og efnisins sem hann vinnur með hverju sinni. Verk hans hafa átt þátt í að breyta afstöðu okkar til hlutanna og þar með breytt heiminum í kringum okkur. Kristján Guðmundsson á heiður skilið fyrir framlag sitt til íslenskrar myndlistar. 

Svört og hvít málverk í hvítum og gráum römmum, 2008. Akríl á striga, lakkað stál.
Birt með leyfi listamannsins og i8 Gallery.

Kristján er fæddur á Snæfellsnesi árið 1941 en uppalinn í Reykjavík. Hann er sjálfmenntaður í myndlist og hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1968. Ári síðar hélt hann sýningu í Gallerí SÚM og sýndi tímamótaverkið Environmental Sculpture o.fl., fyrstu innsetningu íslensks listamanns. Hann var einn af hvatamönnum gallerísins og virkur þátttakandi í SÚM-hópnum. 

Í upphafi ferilsins nýtti Kristján hversdagslegan efnivið í forgengileg verk í anda alþjóðlegu flúxus-hreyfingarinnar sem lagði áherslu á að afmá mörk listar og daglegs lífs og tók listsköpunina ekki of hátíðlega. Með þessum verkum vakti Kristján nýjan skilning á myndlist hjá íslenskum áhorfendum og benti á nýja möguleika til að fjalla um samtímann.

VIÐURKENNINGAR MYNDLISTARRÁÐS

Þá fengu Inga S. Ragnarsdóttir og Kristín G. Guðnadóttir viðurkenningu fyrir útgáfu bókarinnar Deiglumór: Keramik úr íslenskum leir 1930–1970

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:
 
„ Í Deiglumó er fjallar ítarlega um starfsemi nokkurra leirmunaverkstæða á tímabilinu 1930 til 1970 þegar mikil gróska var í gerð muna úr íslenskum leir. Í bókinni er ágrip af sögu leirrannsókna og leirnýtingar á Íslandi fram á þennan dag sem jafnframt er áminning um mikilvægi þess að halda utan um þekkingu sem verður til með tilraunastarfsemi sem gerð er í listrænum tilgangi. Bókina prýðir fjöldi svarthvítra ljósmynda frá leirmunaverkstæðunum sem gefa fyllri mynd af starfseminni auk litljósmynda af völdum munum. Niðurstaðan er heildstætt rit um sögu leirmunagerðar á Íslandi á árunum 1930 til 1970 þegar unnið var mikið þróunarstarf með nýtingu á íslenskum leir og gerðar tilraunir með form og mynstur sem hafa listrænt gildi og eru hluti af íslenskri listasögu.“

Mynd af sýningunni Listþræðir í Listasafni Íslands.

Listasafn Íslands fékk viðurkenningu fyrir áhugaverðasta endurlitið 2021 fyrir sýninguna Listþræðir, sýningarstjórar voru Dagný Heiðdal og Harpa Þórsdóttir.

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

„Viðurkenningu fyrir Áhugaverðasta endurlitið 2021 fellur í skaut Listasafns Íslands fyrir Listþræði, yfirgripsmikla sýningu sem spannaði 60 ára tímabil, þ.e. frá 1958 til 2018. Sýnd voru 60 verk 37 myndhöfunda. Áhugavert og fjölbreytt val sýningarstjóranna Dagnýjar Heiðdal og Hörpu Þórsdóttur á textílverkum frá tímabilinu var sérlega fræðandi. Sýningin gaf gestum safnsins góða mynd af þróun listgreinar sem fram á síðari ár var nær eingöngu stunduð af konum og hefur til þessa ekki hlotið þá athygli hér á landi sem hún verðskuldar. „

Mynd frá sýningunni Endurómur í Verksmiðjunni á Hjalteyri, verk Angela Dufresne.

Verksmiðjan á Hjalteyri fékk viðurkenningu fyrir áhugaverðustu samsýninguna 2021 fyrir sýninguna Endurómur í umsjón Olgu Bergmann og Önnu Hallin.

Í umsögn Myndlistarráðs kemur fram:

„Það hefur lengi verið styrkur og sérstaða íslenskrar myndlistarsenu að listamenn hafa sjálfir iðulega skipulagt metnaðarfull alþjóðleg sýningarverkefni þar sem list þeirra nýtur sín í víðtæku samhengi sem hún ætti ekki annars kost. Þetta er einmitt styrkur sýningarinnar Enduróms í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Kjarninn í sýningunni eru verk þeirra Olgu Bergmann og Önnu Hallin sem á aðdáunarverðan hátt buðu með sér áhugaverðum alþjóðlegum listamönnum til að auka við og efla merkingu þess kjarna. Með þeim í sýningunni tóku þátt þau Angela Dufresne frá Bandaríkjunum, Vesa-Pekka Rannikko frá Finnlandi og Simon Rouby frá Frakklandi. „

Myndlistarráð skipar:

Helgi Þorgils Friðjónsson, Formaður myndlistarráðs

Hlynur Helgason, tilnefndur af Sambandi íslenskra myndlistarmanna

Dagný Heiðdal, varaformaður, tilnefnd af Listasafni Íslands

Guðrún Erla Geirsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskrar myndlistarmanna

Margrét Elísabet Ólafsdóttir, tilnefnd af Listfræðafélagi Íslands