Myndlistarsjóður

Leiðbeiningar

Umsóknarformið 

Umsóknarformið má finna í rafrænni eyðublaðagátt Origo, https://myndlistarsjodur.eydublod.is/Forms en sama kerfi er í notkun hjá nokkrum opinberum stofnunum, meðal annars Þjóðskrá og safnasjóði.

Notast er við rafræn skilríki í snjallsíma eða íslykil. Upplýsingar um Íslykil eða rafræn skilríki má finna á vefsíðu Ísland.is.

 

Styrkir skiptast í eftirfarandi flokka

  • Undirbúningsstyrki – Undirbúningsstyrkir eru veittir til undirbúnings og þróunar viðamikilla verkefna sem síðar geta sótt um styrk til framkvæmdar.
  • Sýningarverkefni – Styrkir til sýningarverkefna. Með verkefni er átt við viðburð sem fer fram á afmörkuðu tímabili með skilgreint upphaf og endi.
  • Útgáfustyrki, rannsóknarstyrki og aðra styrki – Útgáfustyrkir, rannsóknarstyrki og aðrir styrkir eru veittir til rannsókna á verkum íslenskra listamanna og til útgáfu rita um íslenska listasögu og verk myndlistarmanna auk annarra opinna verkefna sem ekki falla undir aðra liði.

*

Hlutverk og markmið: Hlutverk myndlistarsjóðs skv. myndlistarlögum er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og kostun verkefna sem falla undir hlutverk og starfsemi myndlistarráðs. Þannig skal stuðlað að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist hérlendis sem erlendis. Sjóðurinn veitir verkefnastyrki sem ætlaðir eru til að auðvelda framkvæmd verkefna á sviði listsköpunar og listrannsókna. Jafnframt veitir sjóðurinn styrki til undirbúnings verkefna sem falla undir starfssvið sjóðsins.

Skilmálar: Við kynningu þeirra verkefna sem fá styrk úr myndlistarsjóði ber að taka fram nafn myndlistarsjóðs hvort sem er rafrænt eða á prenti. Myndlistarsjóður / Icelandic Visual Arts Fund.

Merki myndlistarsjóðs

Verkefnastyrkir: Myndlistarmenn, sýningarstjórar, listfræðingar og sjálfstætt starfandi fagmenn á sviði myndlistar geta sótt um styrki til skilgreindra verkefna. Listasöfn, gallerí, sýningarstaðir, stofnanir og félög geta notið styrks úr myndlistarsjóði til skilgreindra verkefna. Mikilvægt er að nafn þess sem er í forsvari fyrir hönd, hóps, stofnunarinnar eða félagsins komi skýrt fram sem tengiliður verkefnisins.

Sjóðnum er heimilt að styrkja aðra starfsemi til að efla íslenskt myndlistarlíf m.a. rannsóknir á starfssviði sjóðsins og miðlun upplýsinga um þær. Myndlistarsjóður getur veitt styrki til alþjóðlegra verkefna sem viðurkenndir myndlistarmenn frá Íslandi eru þátttakendur í.

Leiðbeiningar með umsóknarformi

Umsóknum í myndlistarsjóð skal skilað á umsóknarvef sem byggir á rafrænni eyðublaðagátt https://eydublod.is/ sem finna má einnig á heimasíðu sjóðsins. Notast er við rafræn skilríki eða íslykil. Tekið er við umsóknum til kl. 16 á auglýstum lokadegi umsókna.

Leiðbeiningar: Það sem umsækjandi skráir á umsóknareyðublað á að veita upplýsingar um hvers vegna á að vinna viðkomandi verkefni, hvernig, hvenær, hvar og fyrir hvern.

Upplýsingar um umsækjanda: Ef umsækjandi er einstaklingur skráir hann grunnupplýsingar um sig sjálfan sem umsækjanda og tengilið. Ef sótt er um fyrir hönd hóps/stofnun/félags þarf að skrá grunnupplýsingar um stofnunina sem sækir um ásamt upplýsingum um tengilið verkefnis.

Ferilskrá: Hefðbundin ferilskrá aðstandenda verkefnisins.

Umsóknargögn: Eru gögn umsókninni til stuðnings. Búið til Zip skrá til að setja inn ef um margar skrár er um að ræða. Heimilt er að senda inn gögn allt að 10 MB á JPEG, PNG, PDF formati.

Heiti verkefnis: Þarf að vera lýsandi fyrir verkefnið þar sem megin inntak verkefnis er hluti af heitinu – s.s. útgáfa, sýning, rannsókn. Nafnið getur verið hvort sem er nafn á verki/sýningu eða vinnutitill verksins.

Tegund styrks: Umsækjandi velur hvort hann sækir um undirbúningsstyrk, styrk til sýningarverkefna eða útgáfu-, rannsókna- og aðra styrki.

Hvert er verkefnið: 50 orða lýsing á verkefninu sem Myndlistarsjóður má nota til að kynna verkefnið.

Nánari lýsing á verkefninu: Vandaður, einfaldur og skýr texti um verkefnið að hámarki 500 orð. Greinið frá tilgangi þess, mikilvægi og samhengi. Skýrt skal tekið fram fyrir hvaða hluta verkefnisins er verið að sækja um styrk.

Áætlað upphaf og endir verkefnis: Upphaf og endir verkefnisins. Ekki eru veittir styrkir til verkefna sem er lokið fyrir settan umsóknarfrest en verkefni geta verið í vinnslu í allt að tvö ár.

Verk- og tímaáætlun: Hér skal greina frá tímaramma verkefnisins þar sem fram kemur hvernig og hvenær það verður unnið. Gott er að skipta tímarammanum niður í undirbúning, framkvæmd og eftirfylgni og tilgreina helstu áfanga innan hvers tímabils.

Þátttakendur: Tilgreina skal alla listamenn sem taka þátt í verkefninu sem og aðra samstarfsaðila, eins og sýningarstjóra, útgefendur, ráðgjafa, stofnanir og fyrirtæki. Fylgja skal boðsbréf eða staðfesting frá samstarfsstofnun ef um sýningu eða vinnustofudvöl er að ræða.

Kostnaðaráætlun: Myndlistarsjóður veitir allt að 70% af áætluðum heildarkostnaði verkefna, og því þarf að tilgreina aðra fjármögnun verkefnisins á móti styrknum sem sótt er um til myndlistarsjóð.  Hámarksupphæð styrkja geta verið allt að 3.000.000 kr. en lágmarksupphæð ekki undir 300.000 kr. Upphæð sem sótt er um skal tilgreind í tölustöfum og í íslenskum krónum. Ef einhver kostnaðarliður á ekki við setjið þá 0 (núll) í reitin og athugið að nota ekki punkta eða kommur. Hægt er að hlaða upp kostnaðaráætlun ef umsækjandi vill.

Heildarkostnaður verkefnis: Mikilvægt er að hafa í huga við gerð fjárhagsáætlunar að átt er við heildarkostnað verkefnisins síðan er tilgreint nánar í kostnaðarliður hvernig áætlað er að fjármagna það að fullu og öllu leyti.

Hversu háa fjárhæð er sótt um: Þar er tilgreint hversu háa fjárhæð er sótt um í myndlistarsjóð af heildarkostnaði verkefnisins.

Kostnaðarliðir: Ekki allir kostnaðarliðir eru styrkhæfir en fylla þarf inn í alla reiti svo það sé skýrt fyrir hvaða kostnaðarliðum verkefnisins er sótt um styrk fyrir úr myndlistarsjóði. Ef kostnaðarliður á ekki við skal setja 0 (núll). Ef kostnaðarliður er ekki tilgreindur í umsóknarforminu er hægt að setja það í reitina „Annað“ og „Nánar um kostnað vegna verkefnis, ef vill“. Hægt er að hlaða upp nánari kostnaðaráætlun með umsóknargögnum ef vill.

Nánar um kostnað vegna verkefnis: Hér getur umsækjandi settt inn nánari skýringar á kostnaði eða tilgreint um aðra kostnaðarliði ef þarf.

*Dæmi um kostnaðarliði verkefna geta verið aðkeypt þjónusta, prentkostnaður, flutningskostnaður, kynningarefni, efniskostnaður, vinna við uppsetningu, tækjaleiga, ófyrirséður kostnaður (oft 10% af heildarkostnaði verkefnis). Dæmi um tekjur verkefnis geta verið aðrir styrkir, sala á útgáfu, sala á verki, miðasala, eigið framlag umsækjenda og samstarfsaðila (í formi fjármagns, sérfræðiþekkingar, aðstöðu og fleira).

Greinið frá öðrum styrkjum sem umsækjandi hefur sótt um fyrir verkefninu: Þar sem myndlistarsjóður veitir ekki fulla fjármögnun af heildarkostnaði verkefnisins, þarf að tilgreina aðra fjármögnun verkefnisins á móti styrknum sem sótt er um til myndlistarsjóð, jafnvel þó að niðurstaða úr þeim umsóknum liggi ekki fyrir.

Greinið frá öðrum styrkjum sem umsækjandi hefur hlotið síðastliðin fimm ár: Hér þarf að tilgreina alla þá styrki sem umsækjandi hefur hlotið síðastliðin fimm ár í þessari röð: Fyrri styrkir, ár og upphæð.

Staðfesting/boðsbréf frá samstarfsaðila: samningar og önnur gögn sem styðja við verkefnið.

Mat umsókna

Sérskipaðar matsnefndir eru ávalt skipaðar nýju fólki hverju sinni leggja faglegt mat á gæði verkefna og meta styrkhæfi umsókna með tilliti til gildis þeirra fyrir íslenska myndlist, bæði hér á landi og erlendis, og gerir tillögu að upphæð styrkja til myndlistarráðs.  Ekki verður sjálfkrafa úthlutað til allra verkefna sem standast lágmarksviðmið myndlistarráðs, heldur munu upphæðir og fjöldi styrkja ráðast af ráðstöfunarfé sjóðsins, fjölda og gæðum umsókna.

Umsækjendur mega ekki hafa samband við ráðsmenn eða matsnefndir vegna umsókna meðan vinnsla umsókna fer fram. Öllum fyrirspurnum og ábendingum skal beina til Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar. Brot á þessu getur leitt til þess að umsókn verði vísað frá.

Umsóknir og fylgigögn sem berast eftir að umsóknarfrestur er útrunninn eru ógildar og ekki teknar til umfjöllunar í sjóðnum. Ef umsækjanda hefur áður verið veittur styrkur úr myndlistarsjóði þarf lokaskýrsla fyrir veittan styrk að hafa borist áður en ný umsókn er tekin til umfjöllunar.

Greiðsla styrkja

Úthlutun: :  Myndlistarráð úthlutar styrkjum úr myndlistarsjóði að fengnum tillögum frá matsnefndum. Nýjar matsnefndir eru skipaðar við hverja úthlutun af fagfólki. Allir sem koma að afgreiðslu og mati umsókna hjá myndlistarsjóði eru bundnir þagnarheiti. Sjóðurinn fylgir almennum reglum um vanhæfi. Niðurstaðan er tilkynnt umsækjendum í tölvupósti og birt á heimasíðu sjóðsins myndlistarsjodur.is. Úthlutanir úr myndlistarsjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra. Einnig má benda á að skv. 3. tölul. 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, ber stjórnvaldi ekki að veita rökstuðning þegar um er að ræða úthlutun styrkja á sviði lista, menningar eða vísinda.

Greiðslur: Verkefnastyrkir úr myndlistarsjóði eru greiddir þegar styrkhafi hefur óskað eftir afgreiðslu styrks hjá greiðsludeild mennta- og menningarmálaráðuneytis s: 545 9500. Nánari upplýsingar er að finna í tilkynningu til styrkþega frá sjóðnum. Styrkir undir 800.000 krónum eru greiddir út í einu lagi. Styrkir yfir 800.000 krónum eru afgreiddir í tveimur greiðslum. Við úthlutun fá styrkþegar 80% af heildarstyrkupphæð og 20% eftir að lokaskýrslu hefur verið skilað inn vegna verkefnisins. Sjái umsækjandi sér ekki fært að vinna verkefnið getur hann afþakkað styrkinn.

Úthlutun styrks fellur niður ef veittur styrkur er ekki sóttur fyrir næsta umsóknarfrest sjóðsins, nema samið verði um annað við myndlistarráð. info@myndlistarsjodur.is

Greinagerðir

 

Eftirlit: Myndlistarráð hefur eftirlit með að styrkir séu notaðir til þess, sem getið er í umsóknum. Að verkefni loknu kynnir styrkþegi árangur og niðurstöður fyrir myndlistarráði með skriflegri greinargerð í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok verkefnisins sem styrkurinn var veittur til, eða með áfangaskýrslu nái verkefnið yfir meira en eitt almanaksár.

Greinagerðum skal skilað í gegnum sömu rafrænu eyðublaðagátt https://eydublod.is/  og umsóknarformin eru. Þar má finna viðeigandi form fyrir greinagerðir styrkhafa.  

Í slíkri greinagerð er óskað upplýsinga um:

  1. a)    framvindu verkefnis sem hlaut styrk úr myndlistarsjóði, árangur þess og afrakstur.
  2. b)    nýtingu styrks, sundurliðun kostnaðar, aðra styrki og tekjur.
  3. c)    hvort forsendur verkefnis, markmið, verkáætlun, skipulag og kostnaður hafi breyst og þá hvers vegna.

Greinagerð skal berast myndlistarráði í rafrænu formi í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að verkefninu lýkur, nema um annað sé samið fyrir verklok.

Ef styrkir eru veittir til lengri tíma er skal skila árlegri áfangaskýrslu um framgang verkefnisins.

Heimilt er að krefjast endurgreiðslu hafi verkefni sem hlotið hefur styrk ekki verið unnið í samræmi við umsókn og þau gögn sem styrkveiting var byggð á, hafi verkefnið ekki verið unnið samkvæmt skilmálum sjóðsins eða greinagerð hafi ekki verið skilað innan árs frá áætluðum lokum verkefnis, nema sérstaklega sé sótt um frestun og/eða breytingu vegna verkefnisins.

Umsókn um frest skal vera rökstudd og send í tölvupósti á info@myndlistarsjodur.is . Jafnframt er heimilt að hafna umsóknum viðkomandi styrkþega um nýja styrki þar til úrbætur hafa verið gerðar að mati myndlistaráðs.

***

Frekari upplýsingar fást á skrifstofu Kynningarmiðstöðvar íslenskrar myndlistar, sími: 562 7262 eða í tölvupósti: info@myndlistarsjodur.is

Kynningarmiðstöðin tekur þar að auki við öllum bréfum fyrir hönd Myndlistarsjóðs og skulu þau sendast á eftirfarandi heimilisfang:

Myndlistarráð, c/o KÍM

Gimli, Lækjargata 3

101 Reykjavík