Myndlistarsjóður

Libia Castro og Ólafur Ólafsson hlutu Myndlistarverðlaun ársins 2021

Libia Castro og Ólafur Ólafsson hlutu Myndlistarverðlaun ársins 2021fyrir verkið Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhús og á götum úti við Stjórnarráð og Alþingi Íslands, 3. október 2020 í samstarfi við Listahátíðina Cycle og Listahátíð í Reykjavík. 
 

Myndlistarmenn ársins 2021
Tvíeykið Libia Castro og Ólafur Ólafsson. Ljósmynd: Owen Fiene.


Í umsögn dómnefndar kemur fram:
 
Tvíeykið Libia Castro (f. 1970) og Ólafur Ólafsson (f. 1973) sviðsettu í samvinnu við Töfrateymið stóran myndlistarviðburð Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland á árinu. Verkið er fjölradda tónlistar- og myndlistargjörningur við hundrað og fjórtán greinar nýrrar stjórnarskrár Íslands sem kosið var um í október 2012 og nær tveir þriðju hlutar samþykktu. Áræðið og úthugsað þátttökuverk sem varpar ljósi á mátt listarinnar og efnir til umræðu um sjálfan grunn samfélagssáttmálans.

Libia Castro & Ólafur Ólafsson Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland
Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland við Alþingi Íslands, 3. október 2020 í samstarfi við Listahátíðina Cycle og Listahátíð í Reykjavík. Ljósmynd: Owen Fiene.

Listin og töfrarnir geta leyst okkur úr álögum og hvatt okkur til þess að taka þátt. Tvíeykið vill heyra raddirnar, okkar allra sem lifum í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi og skapa til þess listrænan vettvang. Verkið Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland er ákall um aðgerðir en jafnframt vandað tónlistar- og myndlistarverk sem snertir marga innan lista sem utan. Heiður er að veita tvíeykinu Libiu Castro og Ólafi Ólafssyni Íslensku myndlistarverðlaunin 2021.
 
Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2021:
 
Haraldur Jónsson fyrir sýninguna Ljósavél í gallerí Berg Contemporary
Libia Castro og Ólafur Ólafsson fyrir Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland
Margrét H. Blöndal fyrir sýninguna Loftleikur í i8
Selma Hreggviðsdóttir og Sirra Sigrún Sigurðardóttir fyrir sýninguna Ljósvaki í gallerí Berg Contemporary

Una Björg Magnúsdóttir hlaut Hvatingarverðlaunársins fyrir sýninguna Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund, D40, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 16. jan. – 15. mars 2020.

Una Björg Magnúsdóttir
Una Björg Magnúsdóttir. Ljósmynd: Owen Fiene.

Una Björg Magnúsdóttir (f. 1990) starfar í Reykjavík. Hún lauk B.A.-gráðu í myndlist við Listaháskóla Íslands 2014 og stundaði síðar M.A. nám í myndlist við École cantonale d’art de Lausanne í Sviss, þaðan sem hún útskrifaðist 2018. Una Björg hefur verið virk á sýningarvettvangi hérlendis frá því að hún lauk námi, hlotið styrki, listamannalaun og átt frumkvæði að áhugaverðum samsýningum og uppákomum á myndlistarsviðinu.

Una Björg Magnúsdóttir
Una Björg Magnúsdóttir hlaut Hvatingarverðlaun ársins fyrir sýninguna Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund, D40, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 16. jan. – 15. mars 2020.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

 „Titill sýningarinnar Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund er fengin að láni frá sjónhverfingarmanninum David Copperfield, er lét fólk hverfa sporlaust á sviði í Las Vegas. Hið ómögulega gert mögulegt í einni sjónhendingu. Una Björg stígur fram á sviðið á áhrifaríkan hátt með sýningu sinni og heiður er að veita henni Hvatningarverðlaunin 2021.“

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ársins 2021:

Andreas Brunner fyrir Ekki brotlent enn, í D-sal  í Listasafni Reykjavíkur.
Guðlaug Mía Eyþórsdóttir fyrir Milli hluta í Listasal Mosfellsbæjar.
Una Björg Magnúsdóttir fyrir Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund í D-sal, Listasafni Reykjavíkur.

Í dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2020-21 sátu:
 
Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður dómnefndar (Myndlistarráð)
Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir (Listfræðafélag Íslands)
Helga Óskarsdóttir (Samband íslenskra myndlistarmanna)
Valur Brynjar Antonsson (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna)
Þorbjörg Jónsdóttir (Listaháskóli Íslands)