Myndlistarsjóður

Tilgangur Íslensku myndlistarverðlaunanna er að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar á Íslandi og veita einstaka myndlistamönnum mikilvæga viðurkenningu.

Markmið verðalaunanna er að heiðra íslenska myndlistarmenn eða myndlistamenn með búsetu á Íslandi, hvetja til nýrrar listsköpunar og efla kynningu íslenskrar myndlistar, innan lands sem utan.

Myndlistarráð stendur að baki Íslensku myndlistarverðlaunanna og eru þau veitt í nafni ráðsins.

Veitt eru verðlaun í tveimur flokkum: Myndlistarmaður ársins og Hvatningarverðlaun ársins.

Aðalverðlaun, 1 milljón króna, eru veitt íslenskum myndlistarmanni eða myndlistarmanni með búsetu á Íslandi sem þykir hafa skarað framúr með nýlegum verkum og sýningu á Íslandi á síðast liðnu myndlistarári. Hvatningarverðlaun, 500 þúsund krónur, verða veitt ungum starfandi myndlistarmanni sem lokið hefur námi á síðastliðnum 5 árum og sýnt hefur opinberlega innan þess tíma.

Almenningur, myndlistarmenn og fagaðilar á sviði myndlistar tilnefna til verðlaunanna og fer dómnefnd yfir innsendar umsóknir. Dómnefnd er skipuð til eins árs í senn og í henni sitja fulltrúar Myndlistarráðs, Listaháskóla Íslands, Listfræðafélags Íslands, safnstjóra íslenskra listasafna (Listasafn Íslands, Listasafnið á Akureyri, Listasafn Reykjavíkur, Gerðarsafn, Nýlistasafnið, Listasafn Árnesinga, Listasafn Reykjanesbæjar, Listasafn ASÍ) og Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Við val á verðlaunahöfum mun dómnefnd hafa í huga að verk tilnefndra myndlistarmanna skari framúr og að viðkomandi myndlistarmenn séu fulltrúar þess sem best er gert á sviði íslenskrar samtímamyndlistar.

Verðlaunin eru veitt í febrúar ár hvert og fyrir afhendingu birtir dómnefnd forvalslista með nöfnum þeirra fjögurra myndlistarmanna sem möguleika eiga á að hljóta verðlaunin.