Myndlistarsjóður

Sigurður Guðjónsson er Myndlistarmaður ársins 2018

 

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin í fyrsta skipti í Listasafni Reykjavíkur fimmtudaginn 22. febrúar. Sigurður Guðjónsson var valinn Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Innljós, í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á vegum Listasafns ASÍ.

 

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Dómnefndin tilnefnir Sigurð Guðjónsson Myndlistarmann ársins fyrir ákaflega sterkar og heilsteyptar innsetningar á óvenjulegu sýningarsvæði í St. Jósefsspítala. Sýningin er sjónræn upplifun þar sem áhorfandinn verður meðvitaður um eigin tilvist og líkama. Verkin Fuser 2017, Scanner 2017 og Mirror Projector 2017 eru dularfull og voldug í senn og kalla fram óræða skynjun sem þó er full af vísunum í vélræna virkni.

 

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2018:

Anna Júlía Friðbjörnsdóttir fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg

Egill Sæbjörnsson fyrir sýninguna Ùgh & Bõögâr Jewellery í i8 Gallery

Hulda Vilhjálmsdóttir fyrir sýninguna Valbrá í Kling og Bang

 

Auður Lóa Guðnadóttir hlaut Hvatningarverðlaun ársins.

 

Auður Lóa útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur síðan þá verið virk í sýningarhaldi og látið til sín taka innan íslensks myndlistarsamfélags.

 

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Dómnefndin telur að Auður Lóa Guðnadóttir sé vel að Hvatningarverðlaunum ársins komin. Hún hefur sýnt að hún er óhrædd við að leita efniviðar á óvæntum stöðum og túlka viðfangsefni sín af innsæi og frumleika. Öll vinna hennar og framsetning leiftrar af hlýju og fyrirheitum um áframhaldandi hugmyndaflug og óvenjulega sýn á lífið. Því hvetur dómnefndin Auði Lóu til að halda áfram að skapa á sinn einstaka hátt.

Verðlaunafhendingin fer fram næstkomandi fimmtudag, 21. febrúar 2019.