Myndlistarsjóður

Myndlistarráð stendur að Íslensku myndlistarverðlaununum sem hafa þann tilgang að vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar á Íslandi. Verðlaununum er ætlað að stuðla að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og styðja við myndsköpun þeirra. Verðlaunin eru veitt árlega. Veitt eru verðlaun í tveimur flokkum: Myndlistarmaður ársins og Hvatningarverðlaun ársins.

Verðlaunahafar 2022

Mark Wilson og Bryndís Snæbjörnsdóttir

Myndlistarverðlaun 2022

Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson hlutu myndlistarverðlaun ársins 2022 fyrir sýninguna Vísitasíur í Listasafninu á Akureyri.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

„Sýningin er afrakstur margra ára rannsóknarverkefnisins Ísbirnir á villigötum sem þau hafa unnið í samvinnu við sérfræðinga á sviði þjóðfræði, náttúru- og umhverfisfræði. Verkefnið snýst um að auka þekkingu á tengslum dýra, manna og umhverfis á tímum hamfarahlýnunar. Til þess er sjónum beint að hvítabjörnum á Íslandi í fortíð og nútíð. Verkin á sýningunni varpa ljósi á spurningar um náttúruvernd, skoða frásagnir af árekstrum fólks og hvítabjarna í gegnum tíðina og hvað það er sem gerist þegar þessi tvö rándýr mætast.“

„Ferill þeirra er fjölbreyttur og þau hafa nýtt rannsóknaraðferðir samtímalistar til að eiga í samtali við rannsóknir á öðrum sviðum, svo sem náttúruvísindum, þjóðfræði og umhverfisfræðum. Þau líta svo á að aðferðir samtímalistar geti fært mikilvæga viðbót í samtal milli ólíkra fræðigreina og beint sjónum í nýjar og óvæntar áttir.

Þau Bryndís og Mark nýta fjölbreyttar aðferðir við framsetningu verka sinna, þar sem samspil myndbandsverka, fundinna hluta, teikninga, ljósmynda og ýmissa gagna mótar innsetninguna í samhengi við hvern og einn sýningarstað. Innsetning þeirra í Listasafninu á Akureyri var í senn áhrifarík og fræðandi og myndaði áhugaverða heild í rými safnsins.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Myndlistarverðlaunanna 2022:

 • Carl Boutard fyrir sýninguna Gróður jarðar í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni
 • Steingrímur Eyfjörð fyrir sýninguna Tegundagreining í Listasafni Reykjanesbæjar
 • Anna Hrund Másdóttir, Ragnheiður Káradóttir og Steinunn Önnudóttir fyrir sýninguna Feigðarós í Kling og Bang
Lucky 3: Dýrfinna Benita Basalan, Darren Mark og Melanie Ubaldo. Ljósmynd: Margrét Seema Takyar

Hvatningarverðlaun 2022

Lucky 3 eru handhafar Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2022.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

„Verðlaunin hljóta þau fyrir gjörninginn PUTI sem var á dagskrá Sequences X listahátíðarinnar haustið 2021. Verkinu er lýst sem félagslegri kóreógrafíu sem endurspeglar veruleika kynþáttahlutverka og stigveldi valds í samfélaginu. Hópurinn samanstendur af þremur listamönnum sem rekja uppruna sinn til Filippseyja; þeim Dýrfinnu Benitu Basalan, Darren Mark og Melanie Ubaldo. Þegar þau vinna saman nýta þau arfleifð sína og þann stöðuga menningarlega árekstur sem einkennir líf þeirra. Þau stofnuðu hópinn árið 2019 í aðdraganda fyrstu sýningar þeirra í Kling og Bang, Lucky me? „

„Puti þýðir hvítt. Í gjörningi sínum, sem fram fór í listamannarekna rýminu OPEN á Grandagarði, klæddist listafólkið hvítum fatnaði og setti sig í hlutverk ræstingafólks. Margir Filippseyingar á Íslandi vinna við þrif og hefur ræstingastarfið vissan innflytjendastimpil á sér. Lucky 3 gerðu í því að ögra óskrifuðum samskiptareglum sem gilda um ræstingafólk, fólk sem samfélagið getur ekki verið án en á helst ekki að taka pláss á vinnustað sínum. Fólk sem á hvorki að sjást né heyrast og tilheyrir oft í raun ekki starfsmannahópnum. Þau gengu í humátt á eftir fólki og skúruðu slóð þess. Þau höfðu séð fyrir sér að laga viðmót sitt gagnvart sýningargestum að húðlit gestanna og vera notaleg við þá sem hafa brúnan húðlit en fjandsamleg við hvíta. Þetta gekk illa upp því að flestir gestir voru hvítir og endurspeglar það kannski hversu einsleitur sá hópur er sem sækir myndlistarviðburði á Íslandi.  Gjörningur þeirra var ögrandi og ágengur og lét engan sem upplifði hann ósnortinn.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ársins 2022:

 • Guðrún Tara Sveinsdóttir er að stíga sín fyrstu skref í sýningarhaldi hérlendis en hefur þegar skapað sér sérstöðu í list sinni. Hún vinnur með gjörninga og skúlptúra sem gangast við því að rannsaka pólitíska samfélagsmeðvitund og afstöðu einstaklingsins gagnvart hlutheiminum.
 • Klāvs Liepiņš og Renāte Feizaka eru tilnefnd fyrir samvinnuverk sín. Þau koma bæði frá Lettlandi og hafa starfað saman gegnum árin og verið virk í íslensku myndlistar- og menningarlífi. Í sameiginlegum verkum sínum tekst þeim að koma til skila skýrri sýn sem ræðst á skilningarvitin og skilur eftir sterk hughrif.

Dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2022 skipa:

 • Aðalheiður Valgeirsdóttir (Listfræðafélag Íslands)
 • Ásgeir Skúlason (Samband íslenskra myndlistarmanna)
 • Ágústa Kristófersdóttir (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna)
 • Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður dómnefndar (Myndlistarráð)
 • Páll Haukur Björnsson (Listaháskóli Íslands)

Verðlaunahafar 2021

Tvíeykið Libia Castro og Ólafur Ólafsson. Ljósmynd: Owen Fiene.

Myndlistarverðalun 2021

Libia Castro og Ólafur Ólafsson hlutu Myndlistarverðlaun ársins 2021 fyrir verkið Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhús og á götum úti við Stjórnarráð og Alþingi Íslands, 3. október 2020 í samstarfi við Listahátíðina Cycle og Listahátíð í Reykjavík.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin sem haldin var í fjórða sinn við hátíðlega athöfn í Listasafni Íslands fimmtudaginn 25. febrúar.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Tvíeykið Libia Castro (f. 1970) og Ólafur Ólafsson (f. 1973) sviðsettu í samvinnu við Töfrateymið stóran myndlistarviðburð Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland á árinu. Verkið er fjölradda tónlistar- og myndlistargjörningur við hundrað og fjórtán greinar nýrrar stjórnarskrár Íslands sem kosið var um í október 2012 og nær tveir þriðju hlutar samþykktu. Áræðið og úthugsað þátttökuverk sem varpar ljósi á mátt listarinnar og efnir til umræðu um sjálfan grunn samfélagssáttmálans.

Listin og töfrarnir geta leyst okkur úr álögum og hvatt okkur til þess að taka þátt. Tvíeykið vill heyra raddirnar, okkar allra sem lifum í lýðræðislegu fjölmenningarsamfélagi og skapa til þess listrænan vettvang. Verkið Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland er ákall um aðgerðir en jafnframt vandað tónlistar- og myndlistarverk sem snertir marga innan lista sem utan. Heiður er að veita tvíeykinu Libiu Castro og Ólafi Ólafssyni Íslensku myndlistarverðlaunin 2021.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2021:

 • Haraldur Jónsson fyrir sýninguna Ljósavél í gallerí Berg Contemporary
 • Libia Castro og Ólafur Ólafsson fyrir Í leit að töfrum – Tillaga að nýrri stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland
 • Margrét H. Blöndal fyrir sýninguna Loftleikur í i8
 • Selma Hreggviðsdóttir og Sirra Sigrún Sigurðardóttir fyrir sýninguna Ljósvaki í gallerí Berg Contemporary
Una Björg Magnúsdóttir. Ljósmynd: Owen Fiene.

Hvatningarverðlaun 2021

Una Björg Magnúsdóttir hlaut Hvatingarverðlaunársins fyrir sýninguna Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund, D40, í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsi, 16. jan. – 15. mars 2020.

Una Björg Magnúsdóttir (f. 1990) starfar í Reykjavík. Hún lauk B.A.-gráðu í myndlist við Listaháskóla Íslands 2014 og stundaði síðar M.A. nám í myndlist við École cantonale d’art de Lausanne í Sviss, þaðan sem hún útskrifaðist 2018. Una Björg hefur verið virk á sýningarvettvangi hérlendis frá því að hún lauk námi, hlotið styrki, listamannalaun og átt frumkvæði að áhugaverðum samsýningum og uppákomum á myndlistarsviðinu.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Titill sýningarinnar Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund er fengin að láni frá sjónhverfingarmanninum David Copperfield, er lét fólk hverfa sporlaust á sviði í Las Vegas. Hið ómögulega gert mögulegt í einni sjónhendingu. Una Björg stígur fram á sviðið á áhrifaríkan hátt með sýningu sinni og heiður er að veita henni Hvatningarverðlaunin 2021.“

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ársins 2021:

 • Andreas Brunner fyrir Ekki brotlent enn, í D-sal  í Listasafni Reykjavíkur.
 • Guðlaug Mía Eyþórsdóttir fyrir Milli hluta í Listasal Mosfellsbæjar.
 • Una Björg Magnúsdóttir fyrir Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund í D-sal, Listasafni Reykjavíkur.

Í dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2020-21 sátu:

 • Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður dómnefndar (Myndlistarráð)
 • Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir (Listfræðafélag Íslands)
 • Helga Óskarsdóttir (Samband íslenskra myndlistarmanna)
 • Valur Brynjar Antonsson (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna)
 • Þorbjörg Jónsdóttir (Listaháskóli Íslands)

Verðlaunahafar 2020

Guðjón Ketilsson, Auður Edda, Claire Paugam

Myndlistarverðlaun 2020

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó fimmtudaginn 20. febrúar. Guðjón Ketilsson var valinn Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Teikn, í Listasafni Reykjanesbæjar.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Guðjón Ketilsson (f. 1956) hlýtur Myndlistarverðlaun ársins 2020 fyrir sýninguna Teikn í Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningin var samsett úr átta verkum sem tengdust með markvissri framsetningu í sýningarrýminu og fjölluðu öll með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og „lestur“, í víðum skilningi. Á sýningunni mátti sjá ýmiskonar þemu og hugmyndir sem hafa verið áberandi í verkum Guðjóns á síðustu árum, sett fram í nýjum verkum á einstaklega áhrifaríkan hátt.

Sýningin var rökrétt framhald af höfundarverki listamannsins en jafnframt áhrifamikil úrvinnsla og viðbót við það, og vísar leiðina inn í nýja og spennandi merkingarheima. Guðjón Ketilsson er því vel að verðlaununum kominn að mati dómnefndar.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2020:

 • Anna Guðjónsdóttir fyrir Hluti í stað heildar í Listasafni Reykjavíkur.
 • Guðjón Ketilsson fyrir Teikn í Listasafni Reykjanesbæjar.
 • Hildigunnur Birgisdóttir fyrir Universal Sugar í Listasafni ASÍ.
 • Ragnar Kjartansson fyrir Fígúrur í landslagi í i8.
Claire Paugam

Hvatningarverðlaun 2020

Claire Paugam er franskur myndlistarmaður sem búsett hefur
verið á Íslandi um árabil. Hún lauk myndlistarnámi við Beaux-Arts de Nantes Métropole árið 2014 og meistaranámi við Listaháskóla Íslands 2016 og hefur síðan verið ákaflega virk í myndlistarumhverfinu, bæði á Íslandi og Frakklandi.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Claire Paugam (f. 1991) hlýtur hvatningarverðlaunin 2020 fyrir metnaðarfullt og kröftugt framlag til myndlistar á árinu. Claire fæst að jöfnu við myndlist og önnur fjölbreytt verkefni á sviði sýningarstjórnunar, sviðshönnunar, gerð tónlistarmyndbanda, ljóða og textaverka. Má helst nefna einkasýningarnar Pouring Inside í sýningarrýminu Flæði sem var utandagskrárviðburður listahátíðarinnar Sequences IX og Versatile Uprising, gagnvirka innsetningu í gluggagalleríinu Veður og vindur, ásamt Raphaël Alexandre.

Hún hefur einnig tekið þátt í fjölda samsýninga og annarra verkefna. Claire vinnur með persónulega fagurfræði í verkum sínum og að mati dómnefndar hefur hún skýra og áhugaverða listræna sýn og er gjöfull og kröftugur þátttakandi í listinni.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ársins 2020:

 • Claire Paugam
 • Emma Heiðarsdóttir
 • Sigurður Ámundason

Í dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2019 – 20 sátu:

 • Anna Júlía Friðbjörnsdóttir (Samband íslenskra myndlistarmanna)
 • Einar Falur Ingólfsson (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna)
 • Jóhannes Dagsson (Listaháskóli Íslands)
 • Kristín Dagmar Jóhannesdóttir (Listfræðafélag Íslands)
 • Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður dómnefndar (Myndlistarráð)

Verðlaunahafar 2019

Eygló Harðardóttir

Myndlistarverðlaun 2019

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Iðnó fimmtudaginn 21. febrúar. Eygló Harðardóttir var valin Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Annað rými, Nýlistasafninu.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Eygló Harðardóttir (f. 1964) hlýtur Myndlistarverðlaun ársins 2019 fyrir sýninguna Annað rými í Nýlistasafninu sem bar titil sinn með rentu. Með verkum sem í senn voru fínleg og stórkarlaleg, unnin í viðkvæman efnivið, opnaði listakonan fyrir gáttir sem áhorfandinn gat smeygt sér inn fyrir og aukið skynjun sína og næmi á kostnað hinnar vanabundnu rökhyggju.

Það er mat dómnefndar að öll helstu einkenni listakonunnar hafi komið fram á sýningu Eyglóar í Nýlistasafninu: ástríða fyrir myndlist, óheft sköpun, djúpstæð forvitni um virkni þess óræða, miðlun og kennsla sem felst í því trausti sem hún sýndi áhorfendum til þátttöku í sköpuninni.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2019:

 • Eygló Harðardóttir fyrir Annað rými í Nýlistasafninu
 • Guðmundur Thoroddsen fyrir Snip Snap Snubbur í Hafnarborg
 • Hekla Dögg Jónsdóttir fyrir Evolvement í Kling og Bang
 • Steinunn Gunnlaugsdóttir fyrir Litla hafpulsan, Cycle Music & Art – þjóð meðal þjóða.
Leifur Ýmir Eyjólfsson

Hvatningarverðlaun 2019

Leifur Ýmir Eyjólfsson hlaut Hvatningarverðlaun ársins fyrir sýninguna Handrit í D-sal, Listasafni Reykjavíkur. Leifur Ýmir útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2013 og hefur tekið þátt í fjölda samsýninga hér á landi og erlendis. Hann er einn af listamannateyminu Prent & vinir sem hefur verið sýnilegt í íslensku listalífi undanfarin misseri.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:


Leifur Ýmir Eyjólfsson (f. 1987) hefur lagt sérstaka alúð við að tileinka sér tækni og aðferðir á borð við þrykk, ristur, stimpla og keramík. Hann hlýtur Hvatningarverðlaun ársins 2019 fyrir sýningu sína Handrit í D-sal þar sem hann leitar til baka til hugmyndar sem kviknaði á námsárum hans. Þá þegar var brennandi áhugi hans á bókverkagerð vakinn og hugmyndin var að gera blaðsíður úr brenndum leir sem hver og ein stæði sem sjálfstætt bókverk.

Það er mat dómnefndar að Leifi Ými takist með eftirminnilegum hætti að samþætta inntak og efnivið í sýningu sem fylgir áhorfandanum út úr safninu og inn í hvunndaginn þar sem hún heldur áfram að gerjast.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir til Hvatningarverðlauna ársins 2019:

 • Leifur Ýmir Eyjólfsson fyrir Handrit í D-sal, Listasafni Reykjavíkur
 • Auður Ómarsdóttir fyrir Stöngin Inn í Kling og Bang
 • Fritz Hendrik fyrir Draumareglan í Kling og Bang

Verðlaunahafar 2018

Sigurður Guðjónsson

Myndlistarverðlaun 2018

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti Íslensku myndlistarverðlaunin í fyrsta skipti í Listasafni Reykjavíkur fimmtudaginn 22. febrúar. Sigurður Guðjónsson var valinn Myndlistarmaður ársins fyrir sýninguna Innljós, í kapellu og líkhúsi St. Jósefsspítala í Hafnarfirði á vegum Listasafns ASÍ.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Dómnefndin tilnefnir Sigurð Guðjónsson Myndlistarmann ársins fyrir ákaflega sterkar og heilsteyptar innsetningar á óvenjulegu sýningarsvæði í St. Jósefsspítala. Sýningin er sjónræn upplifun þar sem áhorfandinn verður meðvitaður um eigin tilvist og líkama. Verkin Fuser 2017, Scanner 2017 og Mirror Projector 2017 eru dularfull og voldug í senn og kalla fram óræða skynjun sem þó er full af vísunum í vélræna virkni.

Eftirfarandi myndlistarmenn voru tilnefndir sem Myndlistarmaður ársins 2018:

 • Anna Júlía Friðbjörnsdóttir fyrir sýninguna Erindi í Hafnarborg.
 • Egill Sæbjörnsson fyrir sýninguna Ùgh & Bõögâr Jewellery í i8 Gallerí.
 • Hulda Vilhjálmsdóttir fyrir sýninguna Valbrá í Kling og Bang
Auður Lóa Guðnadóttir

Hvatningarverðlaun 2018

Auður Lóa Guðnadóttir útskrifaðist frá myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2015 og hefur síðan þá verið virk í sýningarhaldi og látið til sín taka innan íslensks myndlistarsamfélags.

Í umsögn dómnefndar kemur fram:

Dómnefndin telur að Auður Lóa Guðnadóttir sé vel að Hvatningarverðlaunum ársins komin. Hún hefur sýnt að hún er óhrædd við að leita efniviðar á óvæntum stöðum og túlka viðfangsefni sín af innsæi og frumleika. Öll vinna hennar og framsetning leiftrar af hlýju og fyrirheitum um áframhaldandi hugmyndaflug og óvenjulega sýn á lífið. Því hvetur dómnefndin Auði Lóu til að halda áfram að skapa á sinn einstaka hátt.