Myndlistarsjóður

Úthlutunareglur

552/2014

Reglugerð um myndlistarráð og myndlistarsjóð

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi tekur til starfs myndlistarráðs og myndlistarsjóðs, sbr. III. kafla myndlistarlaga nr. 64/2012.

2. gr.

Myndlistarráð.

Ráðherra skipar myndlistarráð til þriggja ára í senn, tveir fulltrúar eru tilnefndir af Sambandi íslenskra myndlistarmanna, einn af Listfræðafélagi Íslands, einn af Listasafni Íslands og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður ráðsins. Varaformaður er skipaður úr hópi ráðsmanna. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Við tilnefningu skal leitast við að tryggja sem jafnastan hlut karla og kvenna og þess skal gætt að sami aðili verði ekki tilnefndur aðalmaður oftar en tvö starfstímabil í röð, þ.e. sex ár.

3. gr.

Verkefni myndlistarráðs.

Verkefni myndlistarráðs eru margþætt við að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og við að stuðla að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist hérlendis sem erlendis.

Myndlistarráð skal veita ráðuneytinu umsögn um erindi sem það vísar þangað. Ráðið getur einnig að eigin frumkvæði beint ábendingum og tillögum til ráðuneytisins um myndlistarmálefni. Allar umsagnir skulu vera skriflegar. Myndlistarráð getur einnig verið öðrum stjórnvöldum til ráðgjafar um málefni myndlistar og skulu slíkar umsagnir vera skriflegar með afriti til ráðuneytisins.

Myndlistarráð gerir tillögu til ráðherra um stefnu og áherslur í starfi myndlistarsjóðs til þriggja ára í senn. Í tillögunum skal koma fram hvaða áherslusvið hafi forgang við ráðstöfun fjár á hverju þriggja ára tímabili við framgang listsköpunar, kynningu á myndlist hér á landi og erlendis og eflingu þekkingar á myndlist almennt.

Myndlistarráð úthlutar styrkjum úr myndlistarsjóði. Úthluta skal tvisvar á ári úr sjóðnum, sbr. 6. gr. Úthlutanir úr myndlistarsjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi og sæta ekki kæru til ráðherra.

Með styrkveitingum úr myndlistarsjóði stuðlar myndlistarráð að kynningu á íslenskum myndlistarmönnum og myndsköpun þeirra hér á landi og erlendis og eflir alþjóðlegt samstarf íslenskra myndlistarmanna og stofnana. Ráðið getur auk einstakra styrkveitinga samið við til þess bæra aðila að sinna ákveðnum verkefnum sem lúta að þessu. Kostnaður við slíkt greiðist úr myndlistarsjóði.

Ráðherra getur falið myndlistarráði með skriflegri beiðni að sinna öðrum verkefnum.

4. gr.

Umsýsla myndlistarráðs.

Myndlistarráð getur leitað eftir heimild ráðherra til reksturs skrifstofu til að annast umsýslu á myndlistarsjóði og verkefnum ráðsins. En einnig getur ráðið eða ráðuneytið óskað eftir að samið sé við til þess bæran aðila að annast framkvæmd verkefna sem unnin eru í þágu ráðsins og til að annast almenna umsýslu vegna starfsemi ráðsins og myndlistarsjóðs. Ætíð skal gera skriflegan samning eða skjalfesta á annan hátt samkomulag um slíka þjónustu.

Kostnaður við umsýslu, mat á umsóknum og við störf myndlistarráðs og rekstraraðila skal greiddur af árlegu ráðstöfunarfé myndlistarsjóðs. Ráðið ber ábyrgð á umsýslu og fjárreiðum myndlistarsjóðs.

5. gr.

Hlutverk og skipulag myndlistarsjóðs.

Hlutverk myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og kostun verkefna sem falla undir hlutverk og starfsemi myndlistarráðs. Þannig skal stuðlað að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist hérlendis sem erlendis.

Sjóðurinn veitir verkefnastyrki sem ætlaðir eru til að auðvelda framkvæmd verkefna á sviði listsköpunar og listrannsókna. Jafnframt veitir sjóðurinn styrki til undirbúnings verkefna sem falla undir starfssvið sjóðsins.

Myndlistarráð úthlutar styrkjum úr myndlistarsjóði.

6. gr.

Auglýsingar og umsóknir.

Myndlistarráð auglýsir eftir umsóknum um styrki úr myndlistarsjóði í dagblöðum, vefauglýsingum eða með öðrum sannanlegum hætti. Auglýst skal eftir umsóknum að jafnaði einu sinni á ári og skal umsóknarfrestur eigi vera skemmri en sex vikur.

Í auglýsingu skulu koma fram upplýsingar um tilgang og hlutverk sjóðsins, helstu atriði sem litið er til við mat á umsóknum og hvar eyðublöð fyrir umsóknir er að finna. Skilgreina skal umsóknarfrest og hvenær umsóknir verði afgreiddar. Birta má styttri auglýsingu í dagblöðum og vísa á ýtarlegri upplýsingar í vefauglýsingu.

Myndlistarráði er heimilt að leggja sérstaka áherslu á tiltekna þætti við mat á umsóknum og skal gerð grein fyrir því í auglýsingu.

Umsóknum skal skilað á umsóknareyðublaði myndlistarsjóðs. Í umsókn skal koma fram hvernig umsækjandi hyggst verja styrknum og eftirfarandi upplýsingar og gögn eftir því sem við á:

 1. Upplýsingar um umsækjanda og samstarfsaðila, ef einhverjir eru. Nafn þess sem er í forsvari fyrir umsókn og annast samskipti við sjóðinn ef um stofnun eða félag er að ræða.
 2. Upplýsingar um starfsferil, faglegan og listrænan bakgrunn aðila verkefnisins.
 3. Lýsing á verkefninu, markmiðum þess og þýðingu fyrir umsækjanda, sem og gildi verkefnisins með tilliti til hlutverks sjóðsins.
 4. Verk- og tímaáætlun.
 5. Fjárhagsáætlun, þar sem fram koma m.a. upplýsingar um áætlaðan kostnað, tekjur, hlutdeild annarra í kostnaði við verkefnið og styrkfé sem verkefnið hefur hlotið eða hefur verið sótt um til þess.
 6. Staðfest gögn frá samstarfsaðilum og önnur þau gögn sem styðja umsókn.

7. gr.

Mat á umsóknum.

Myndlistarráð metur styrkhæfi umsókna og ákveður afgreiðslu þeirra. Við veitingu styrkja skal gæta þess vandlega að allar umsóknir fái sanngjarna umfjöllun og ákvarðanir séu ávallt reistar á faglegu mati. Mat á umsóknum skal einkum byggjast á eftirtöldum sjónarmiðum eftir því sem við á:

 1. listrænu gildi og mikilvægi verkefnis fyrir eflingu íslenskrar myndlistar,
 2. að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að,
 3. starfsferli, faglegum og/eða listrænum bakgrunni umsækjanda og annarra þátttakenda,
 4. fjárhagsgrundvelli verkefnisins og/eða hvort umsækjandi hafi hlotið aðra styrki.

Hafi umsækjandi áður fengið styrk úr myndlistarsjóði þarf að liggja fyrir greinargerð um framkvæmd fyrra verkefnis og ráðstöfun styrksins til að ný umsókn komi til greina.

Að jafnaði er hvorki gert ráð fyrir styrkveitingum til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, né til verkefna og viðburða sem þegar hafa átt sér stað.

Við mat á umsóknum getur myndlistarráð leitað umsagnar fagaðila, þegar það telur þess þörf.

8. gr.

Ákvörðun um styrkveitingar og eftirlit.

Myndlistarráð tekur ákvörðun um styrkveitingar úr myndlistarsjóði á grundvelli faglegs mats á umsóknum og hefur eftirlit með því að styrkir séu notaðir til þess sem getið var í umsóknum. Um málsmeðferð skal gætt stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Myndlistarráði er heimilt að binda styrkveitingar skilyrðum er stuðla að eðlilegri framvindu þeirra verkefna sem styrkt eru. Í þeim tilvikum kemur styrkur ekki til greiðslu nema að uppfylltum þessum skilyrðum. Þá er myndlistarráði heimilt að krefja styrkþega um áfangaskýrslu um framvindu verkefnisins ef þurfa þykir, myndlistarráði að kostnaðarlausu.

Lokagreiðsla styrkupphæðar verður að jafnaði ekki innt af hendi fyrr en myndlistarráði hefur borist greinargerð um verkefnið.

Verði brestur á að ráðist sé í verkefni, tefjist framkvæmd þess úr hófi eða komi önnur skilyrði sem styrkveiting kann að vera bundin ekki fram innan eðlilegra tímamarka, getur myndlistarráð tekið ákvörðun um að fella styrkveitingu niður.

Ef sýnt þykir að styrkfé hafi ekki verið eða verði ekki nýtt í þeim tilgangi sem ætlað var, getur myndlistarráð krafist þess að sjóðnum verði endurgreiddur styrkur í heild eða að hluta. Áður en ákvörðun er tekin um niðurfellingu styrks eða endurgreiðslu styrks skal styrkþega gefinn kostur á að lýsa viðhorfi sínu til málsins.

Myndlistarráð tilkynnir umsækjanda skriflega um afgreiðslu umsóknar. Styrkþega skal jafnframt tilkynnt um skilyrði sem styrkveiting er bundin, eftirlit sem henni fylgir og viðurlög, ef út af bregður.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið sér um greiðslu styrkja. Viðtaka styrkfjár felur í sér viðurkenningu á að styrkþegi fallist á skilyrðin fyrir styrkveitingunni.

Að verkefni loknu kynnir styrkþegi árangur og niðurstöður fyrir myndlistarráði með skriflegri greinargerð í síðasta lagi þremur mánuðum eftir lok þess verkefnis eða með áfangaskýrslu nái verkefni yfir meira en eitt almanaksár.

Í slíkri skýrslu er óskað upplýsinga um:

 1. framvindu verkefnis sem hlaut styrk úr myndlistarsjóði, árangur þess og afrakstur,
 2. nýtingu styrks, sundurliðun kostnaðar, aðra styrki og tekjur,
 3. hvort forsendur verkefnis, markmið, verkáætlun, skipulag og kostnaður hafi breyst og ástæður þess.

9. gr.

Styrktímabil.

Styrkir úr myndlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna. Nýti styrkþegi ekki styrk í samræmi við tímaáætlun verkefnisins, fellur styrkurinn niður, nema sérstaklega sé sótt um frestun á greiðslu hans. Umsókn um frest skal vera skrifleg og rökstudd.

Myndlistarráð getur ákveðið að veita styrki eða vilyrði fyrir áframhaldandi styrkveitingum til verkefna sem taka til lengri tíma en eins árs.

10. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi, sem sett er með heimild í 22. gr. myndlistarlaga nr. 64/2012, öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi reglur um úthlutun styrkja úr myndlistarsjóði nr. 413/2013.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, 23. maí 2014.

Illugi Gunnarsson.