Myndlistarsjóður

Seinni úthlutun úr myndlistarsjóði 2021

Myndlistarráð úthlutar 43 milljónum í styrki til 59 verkefna í seinni úthlutun sjóðsins. Sjóðnum bárust 163 umsóknir og sótt var um fyrir rúmum 141 milljónum.

Styrkir til sýningarverkefna eru 35 talsins að heildarupphæð 25 milljónir. Þar að auki veitir myndlistarráð 9 undirbúningsstyrki að heildarupphæð 5 milljónir og í flokki útgáfu- og rannsóknarstyrkja eru 15 verkefni sem hljóta styrki að heildarupphæð 12,3 milljónir króna.

Meðal helstu styrkveitinga að þessu sinni má nefna:

Hæstu styrkina eða 3.000.000 kr. hlýtur útilistasýningarverkefnið Hjólið V á vegum Myndhöggvarafélags Reykjavíkur og myndlistartvíæringurinn Sequences sem verður haldin nú í október í tíunda sinn.

Sequences X myndlistarhátíð hlaut 3 milljón króna styrk og verður hátíðin haldin í tíunda sinn nú í október 2021. Mynd: stilla frá myndinni Munnhola, obol ombra houp-lá eftir Ástu Fanney Sigurðardóttur sem verður sýnd á hátíðinni í Bíó Paradís.

Listasafn Reykjanesbæjar fær 2.000.000 kr fyrir sýningarverkefnið Skrápur/SecondSkin og sýningarverkefnið Rúllandi snjóbolti sem haldin er árlega í Bræðslunni á Djúpavogi fær 1.750.000 kr. Myndlistarkonan Rúrí hlýtur styrk fyrir þátttöku í sýningu í Anchorage Museum í Alaska og Listasafnið á Akureyri hlýtur 1.000.000 kr fyrir A! Gjörningarhátíð sem haldin er árlega á Akureyri.

Í flokki útgáfu- og rannsókna og undirbúningsstyrkja eru hæstu styrkir á bilinu 1 – 1.500.000 kr. Þar má nefna nokkrar bókaútgáfur, ein fjallar um feril Magnúsar Pálssonar listamanns og önnur rýnir í sögu íslenskrar abstraktlistar á sjötta áratugnum, einnig er fyrirhugað að gefa út bók um samtíma leirlist og sögu Myndlista- og handíðaskólans 1939-1999. Fjölbreytt verkefni hlutu styrki á bilinu 300-700.000 kr. t.m. internetsýning á vegum Kunstwerke Berlin í samstarfi við Nýlistasafnið, undirbúningur við skrif á sögu bókverka á íslandi, heimildarmynd eftir Sæmund Þór Helgason og undirbúningstyrkir fyrir fjölbreyttar samsýningar.

Rúllandi snjóbolti – sýningarverkefni á alþjóðlegri samtímalist hlaut 1.750.000 kr. Sýningin fer fram sumarið 2022 í húsnæði Ars longa – samtímalistasafns á Djúpavogi. Mynd: Sigurður Guðmundsson, Earthquake, 1969 @The Universe is a Poem.

Hlutverk myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Myndlistarsjóður heyrir undir myndlistarráð og starfar samkvæmt myndlistarlögum og eftir reglum sem menntamálaráðherra setur. Sérskipaðar matsnefndir meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun til myndlistarráðs.

Myndlistarráð er skipað: Helga Þorgils Friðjónssyni, formanni myndlistarráðs, Dagnýju Heiðdal f.h. Listasafns Íslands, Hannesi Sigurðssyni f.h. listfræðifélagsins, Guðrúnu Erlu Geirsdóttur f.h. SÍM og Hlyni Helgasyni f.h. SÍM.

Nálgast má lista yfir allar úthlutanir sjóðsins og nánari upplýsingar hér