Íslensku myndlistarverðlaunin eru veitt í tveimur flokkum: Myndlistarmaður ársins og hvatningarverðlaun ársins. Myndlistarráð stendur nú í fimmta skipti að úthlutun Íslensku myndlistarverðlaunanna en markmiðið er að heiðra íslenska myndlistarmenn, eða myndlistarmenn sem búsettir eru á Íslandi, og vekja athygli á því sem vel er gert jafnframt því að hvetja til nýrrar listsköpunar.
EFTIRFARANDI MYNDLISTARMENN ERU TILNEFNDIR TIL ÍSLENSKU MYNDLISARVERÐLAUNANNA 2022:
Bryndís Snæbjörnsdóttir og Mark Wilson fyrir sýninguna Vísitasíur í Listasafninu á Akureyri
Carl Boutard fyrir sýninguna Gróður jarðar í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafn
Steingrímur Eyfjörð fyrir sýninguna Tegundagreining í Listasafni Reykjanesbæjar
Anna Hrund Másdóttir, Ragnheiður Káradóttir og Steinunn Önnudóttir fyrir sýninguna Feigðarós í Kling og Bang
EFTIRFARANDI MYNDLISTARMENN ERU TILNEFNDIR TIL
HVATNINGARVERÐLAUNA:
Lucky 3 er hópur sem samanstendur af þremur listamönnum sem rekja uppruna sinn til Filippseyja; þeim Dýrfinnu Benitu Basalan, Darren Mark og Melanie Ubaldo. Þegar þau vinna saman nýta þau arfleifð sína og þann stöðuga menningarlega árekstur sem einkennir líf þeirra.
Klāvs Liepiņš og Renāte Feizaka eru tilnefnd fyrir samvinnuverk sín. Þau koma bæði frá Lettlandi og hafa starfað saman gegnum árin og verið virk í íslensku myndlistar- og menningarlífi. Í sameiginlegum verkum sínum tekst þeim að koma til skila skýrri sýn sem ræðst á skilningarvitin og skilur eftir sterk hughrif.
Guðrún Tara Sveinsdóttir er að stíga sín fyrstu skref í sýningarhaldi hérlendis en hefur þegar skapað sér sérstöðu í list sinni. Hún vinnur með gjörninga og skúlptúra sem gangast við því að rannsaka pólitíska samfélagsmeðvitund og afstöðu einstaklingsins gagnvart hlutheiminum.
Greint verður frá því hverjir hjóta Myndlistarverðlaun ársins og hver hlýtur Hvatningarverðlaun ársins fimmtudaginn 17. mars 2022 í Iðnó.
MYNDLISTARRÁÐ VEITIR AUK ÞESS FJÓRAR VIÐURKENNINGAR:
Viðurkenning fyrir útgefið efni á sviði myndlistar hvort heldur sem er í prentuðu eða stafrænu formi, er veitt stofnun, einstaklingi eða fyrirtæki sem staðið hefur að framlagi sem talið er hafa mikilvægt gildi fyrir kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist.
Áhugaverðasta endurlitið er veitt safni, sýningarými, hópi og/eða sýningarstjóra sem staðið hefur að einstaklega vel heppnaðri sýningu hér á landi á erlendri eða innlendri myndlist þar sem ljósi er varpað á listrein, stefnu, hóp eða einstakling.
Áhugaverðasta samsýningin er veitt sýningarými, myndlistarhátíð, hópi og/eða sýningarstjóra sem staðið hefur að samsýningu á myndlist sem talin er hafa skarað fram úr á sýningar vettvangi hér á landi.
Heiðursviðurkenning fellur í skaut starfandi myndlistarmanns fyrir heildarframlag hans til íslenskrar myndlistar. Viðurkenning fyrir útgefið efni, hvort heldur sem er í prentuðu eða stafrænu formi, er veitt stofnun, einstaklingi eða fyrirtæki sem staðið hefur að framlagi sem talið er hafa mikilvægt gildi fyrir kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist.
Dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2022 skipa:
Aðalheiður Valgeirsdóttir (Listfræðafélag Íslands)
Ásgeir Skúlason (Samband íslenskra myndlistarmanna)
Ágústa Kristófersdóttir (fulltrúi safnstjóra íslenskra myndlistarsafna)
Helgi Þorgils Friðjónsson, formaður dómnefndar (Myndlistarráð)
Páll Haukur Björnsson (Listaháskóli Íslands)