Myndlistarsjóður

Tilnefningar til Íslensku myndlistarverðlaunanna 2023

Þann 16. mars næstkomandi verða Íslensku myndlistarverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Iðnó. Verðlaunin hafa verið veitt árlega síðan 2018 og hafa skipað sér mikilvægan sess í menningarlandslaginu. Markmið verðlaunanna er að heiðra íslenska myndlistarmenn eða myndlistamenn sem búsettir eru á Íslandi og vekja athygli á því sem vel er gert á sviði myndlistar en jafnframt veita einstaka myndlistamönnum mikilvæga viðurkenningu og hvetja til nýrrar listsköpunar. Myndlistarráð stendur að baki myndlistarverðlaunanna.

Myndlistarmaður ársins

Alls eru fjórir listamenn tilnefndir í flokknum Myndlistarmaður ársins

Finnbogi Pétursson fyrir sýninguna Flói

Kleifar, Hillebrandtshúsið 02.07.2022-14.08.2022

Finnbogi Pétursson (f. 1959) er tilnefndur til Myndlistarverðlaunanna 2023 fyrir verkið FLÓI. Finnbogi hefur lengi leitast við að birta okkur hljóð og bylgjur sem eru alla jafna ósýnilegar. Veröldin er meira en það sem við blasir; hún hefur líka tíðni, langar bylgjur og stuttar, grunnar og djúpar, og er að því leyti frekar tónverk en málverk. Finnbogi nýtir eins konar tilfærslu til að sýna okkur hið ósýnilega, til dæmis með því að nota hljóð til að framkalla gárur á vatni eða til að stýra upplifun okkar á rými. Stundum þarf mikla tækni til að skapa verkin en stundum eru þau svo einföld að undrum sætir. Sýningin var sett upp í Hillebrandtshúsinu í gamla bænum á Blönduósi og var hluti af sýningaröð sem hjónin Áslaug Thorlacius og Finnur Arnar Arnarson hafa staðið að frá 2017, en þau hafa sett upp listasetur á bænum Kleifum, rétt utan við Blönduós.

Hrafnkell Sigurðsson fyrir sýninguna Upplausn

Auglýsingahlé Billboard 2022, 01.01.2022-05.01.2022

Hrafnkell Sigurðsson (f. 1963) er tilnefndur til Myndlistarverðlaunanna 2023 fyrir verkið Upplausn sem er hluti af sýningaröðinni Auglýsingahlé Billboard. Árið 2022 sáu allir Reykvíkingar þegar óræðar hreyfimyndir birtust á 450 skjáum úti um alla borg, í strætóskýlum og á stórum auglýsingaskiltum. Á skjáunum birtust síbreytilegar þokur sem mynduðu stundum form og mynstur sem leystust þó jafnóðum upp aftur. Þetta var ekki bilun heldur verkið Upplausn eftir Hrafnkel Sigurðsson, unnið upp úr stórum, samsettum ljósmyndaverkum frá 2018 þar sem ótal örsmáir fletir raðast saman í þokukennda mósaíkmynd. Það er mat dómnefndar að með því að nýta auglýsingaskiltin hafa Hrafnkell og fleiri opnað nýja leið til að miðla myndlist en Hrafnkell sýni líka að skiltin eru ekki bara eins og fletir til að fylla út í, heldur er hægt að nýta þau sem miðil með öllu sem tæknin býður upp á og koma skilaboðunum úr sýningarsalnum út í hversdagslegan veruleika okkar þar sem við þurfum mest á þeim að halda.

Ingibjörg Sigurjónsdóttir fyrir sýninguna De rien

Kling & Bang, 02.06.2022-24.07.2022

Ingibjörg Sigurjónsdóttir (f. 1985) er tilnefnd fyrir sýninguna De rien, í Kling og Bang. Ingibjörg er ekki ein um að nýta sér hroða framleiddrar vöru sem fóður í list sína. Hið óburðuga, verðlausa og auvirðilega verður henni gjarnan að hugðarefni sem myndbirting ófullkominnar tilveru, sem varir eitt augnablik og ekki meir, en stendur eftir sem minning eða bara minni þegar best lætur. Á sýningunni De rien hélt hún uppteknum hætti með verkum úr jafn auvirðilegum efniviði og sandi og pappír. Þótt formið væri dregið niður í einföldustu gerð varð að standa vörð um verkin á opnuninni svo börn, sem slitu sig úr vörslu foreldra sinna, þyrluðu þeim ekki upp í byl eða blaðafjúk þegar þau geystust framhjá þeim í eltingaleik um ganga húsnæðisins. Fljótt á litið virðist ætlun Ingibjargar vera að gera sem minnst úr nær engu. Ingibjörg nærir list sína ekki einasta á stundlegasta efniviði heldur mótar hann á strangasta hátt. Móthverfa fáfengilegs efnis og óbrigðular mótunar finnur sér óvenjulegan samnefnara í útgáfu hennar Heiglar hlakka til heimsendis. Óvænt sátt þessara hrópandi þversagna ræður vali dómnefndar.

Rósa Gísladóttir fyrir sýningarnar Loftskurður og Safn Rósu Gísladóttur

Listasafn Reykjavíkur – Ásmundarsafni, 26.02.2022-28.08.2022

Listasafn Einars Jónssonar, 24.06-02.10.2022

Rósa Gísladóttir (f. 1957) er tilnefnd fyrir tvær sýningar, annars vegar Loftskurð í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni, og hins vegar sýninguna Safn Rósu Gísladóttur í Listasafni Einars Jónssonar. Á fjörutíu ára ferli í höggmyndalist hefur Rósa sýnt víða og hlotið viðurkenningar fyrir. Þó eru verk hennar frekar hljóðlát, fyrst og fremst hugleiðingar um efni og form og samhengi hlutanna. Í þeim má lesa samtal hennar við listasöguna, einkum við módernisma og framúrstefnulist tuttugustu aldar sem enn er til úrvinnslu á okkar póstmódernísku tímum. Það er mat dómnefndar að sýningar Rósu séu mikilvægt framlag til slíkrar endurskoðunar ásamt því að sýna styrk hennar sem listamanns sem stendur föstum fótum í sínum samtíma en er óhrædd við að setja sig í samhengi við helstu myndhöggvara okkar listasögu. Á síðustu fjórum áratugum hefur Rósa skapað mikið höfundarverk sem opnar okkur leið til slíkrar endurskoðunar og í sýningum síðasta árs má lesa þá nálgun sem hún hefur þróað. Verk hennar eiga svo aftur eftir að verða viðfangsefni komandi kynslóða sem, eins og við, þurfa að endurskoða allt og finna það upp á nýtt.

Hvatningarverðlaun

Í flokki hvatningarverðlauna eru þrír upprennandi myndlistarmenn tilnefndir

Ásgerður Birna Björnsdóttir fyrir sýninguna Snertitaug

Listasafn Reykjavíkur- Hafnarhúsi, 27.01.2022-20.03.2022

Myndlistarkonan Ásgerður Birna Björnsdóttir (f. 1990) er tilnefnd til Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna árið 2023 fyrir sýninguna Snertitaug í D-sal í Listasafni Reykjavíkur. Hún hefur þegar markað sér sérstöðu meðal ungra listamanna með því að varpa fram áleitnum vangaveltum um framtíðina og takast á við þær spurningar sem eru hvað mest knýjandi í samtímanum og varða samspil manns og náttúru.  Sýning hennar Snertitaug vakti verðskuldaða athygli. Að mati dómnefndar var sýningin áhrifamikil og virkni tækjanna og starfsemi lífveranna, sem á sér stað að stórum hluta handan beinnar skynjunar mannsins, beindi sjónum að grunneigindum lífs og vaxtar á jörðinni og oft á tíðum klunnalegra aðferða mannsins til þess að virkja þessa orku og stýra henni.

Elísabet Birta Sveinsdóttir fyrir sýninguna Mythbust

Kling & Bang, 08.10.2022-13.11.2022

Elísabet Birta Sveinsdóttir (f. 1991) á sér langan námsferil í listum, fyrst í dansi og síðan í myndlist, en segja má að hún notfæri sér allt litróf myndlistarinnar: gjörninga, listdans í víðtækustu merkingu, vídeó og málaralist, til að staðsetja sig í mengi listsköpunarinnar. Elísabet Birta tekur fullan þátt í veröldinni kringum sig og sýning hennar Mythbust í Kling og Bang, sem hún er tilnefnd til hvatningarverðlauna Myndlistarráðs fyrir, eru harkalegir hnefaleikar í heimi sem reynir að skilyrða einstaklinginn og þröngva honum til að leika leik hefðbundinnar hegðunar. Samsömun listakonunnar við kattardýr er ekki að ófyrirsynju. Kvikindið er lipurt fram úr hófi, smýgur inn og út um þrengstu göt, stekkur léttilega upp og ofan af hæstu hæðum og kemur alltaf niður standandi. Í skynrænni óvissu býr listrænn galdur að mati dómnefndar, sem Elísabetu Birtu tekst að virkja með sannfærandi hætti þannig að níu líf kattarins verða næsta trúverðug á sinn hrollvekjandi hátt.

Egill Logi Jónasson fyrir sýninguna Þitt besta er ekki nóg 

Listasafnið á Akureyri, 27.08.2022-05.03.2023

Egill Logi Jónasson (f. 1989) er tilnefndur til Hvatningarverðlauna Íslensku myndlistarverðlaunanna fyrir sýninguna Þitt besta er ekki nóg í Listasafninu á Akureyri. Tjáning Egils er hrein og bein, og á það við um hvaða miðil sem hann kýs að nota. Útkoman er hrá, fígúratív og laus við alla óþarfa fágun. Hann smyr myndflötinn þykkum litum þannig að hvert atriði þrengir sér að öðru. Hvergi er ónýttan blett að finna í kraðakinu á striganum, sem dregur dám af myndasögum. Það er mat dómnefndar að Agli Loga takist að fanga lundarfarslega loftvog með málverkum sínum á sýningunni Þitt besta er ekki nóg í Listasafninu á Akureyri, sem hann bregður upp sem meðali við depurð og drunga, eða til að fagna dásemdum tilverunnar. Toppurinn á þeirri uppsveiflu er án efa mikil og litrík vegg- og götumálverk á Akureyri, sem bera vitni um karnivalskt eðli listar hans.

Myndlistarráð veitir auk þess fjórar viðurkenningar

Viðurkenning fyrir útgefið efni á sviði myndlistar hvort heldur sem er í prentuðu eða stafrænu formi, er veitt stofnun, einstaklingi eða fyrirtæki sem staðið hefur að framlagi sem talið er hafa mikilvægt gildi fyrir kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist.  

Áhugaverðasta endurlitið er veitt safni, sýningarými, hópi og/eða sýningarstjóra sem staðið hefur að einstaklega vel heppnaðri sýningu hér á landi á erlendri eða innlendri myndlist þar sem ljósi er varpað á listrein, stefnu, hóp eða einstakling.  

Áhugaverðasta samsýningin er veitt sýningarými, myndlistarhátíð, hópi og/eða sýningarstjóra sem staðið hefur að samsýningu á myndlist sem talin er hafa skarað fram úr á sýningar vettvangi hér á landi. 

Heiðursviðurkenning fellur í skaut starfandi myndlistarmanns fyrir heildarframlag hans til íslenskrar myndlistar. Viðurkenning fyrir útgefið efni, hvort heldur sem er í prentuðu eða stafrænu formi, er veitt stofnun, einstaklingi eða fyrirtæki sem staðið hefur að framlagi sem talið er hafa mikilvægt gildi fyrir kynningu og rannsóknir á íslenskri myndlist.  

Myndlistarráð stendur að Íslensku myndlistarverðlaununum, en sérstaklega skipuð dómnefnd velur myndlistarmann ársins og hvatningarverðlaunahafa.

Myndlistarráð tekur ákvörðun um hverjir hljóta viðurkenningar, en í ráðinu situr fulltrúi frá Menningarmálaráðuneytinu, Listasafni Íslands og Listfræðafélagi Íslands ásamt tveimur fulltrúum Sambands íslenskra myndlistarmanna. 

Dómnefnd Íslensku myndlistarverðlaunanna 2023 skipa: 

  • Ásdís Spanó, formaður dómnefndar (Myndlistarráð) 
  • Jón Proppé (fulltrúi safnstjóra íslenskra safna)
  • Sigrún Hrólfsdóttir (Samband íslenskra myndlistarmanna)
  • Halldór Björn Runólfsson (Listfræðafélag Íslands)
  • Unnar Örn (Listaháskóli Íslands)

Nánar um verðlaunin: https://myndlistarsjodur.is/myndlistarverdlaun/